Verkefnaflutningur til sveitarfélaga

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 14:04:58 (1489)

[14:04]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Að halda því fram að ríkisvaldið eigi ekki með einum eða neinum hætti að koma

nálægt þessari sameiningu stenst náttúrlega ekki. Það eru lög frá Alþingi um breytingu á sveitarstjórnarlögum þar sem segir að félmrh. skuli árin 1993 og 1994 beita sér fyrir sérstöku átaki í sameiningu sveitarfélaga. Og varðandi það að ekki hafa legið fyrir einhverjar tillögur um verkefnatilflutning. Fyrst kemur þetta frá Sambandi ísl. sveitarfélaga hvaða verkefni þau leggja til að verði flutt til sveitarfélaganna í kjölfar sameiningarinnar. Undir þetta hefur ríkisstjórnin tekið og ég vil taka það fram vegna þess sem hér hefur komið fram að á öllum stigum málsins í þau þrjú ár, sem þetta mál hefur verið í undirbúningi, hefur verið farið eftir því sem sveitarstjórnarmenn sjálfir hafa lagt til, sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur lagt til í þessu efni. Þannig að í einu og öllu hefur þar verið fylgt þeirra tillögum og því sem þeir hafa lagt til þessara mála.
    Varðandi verkefnatilflutninginn þá held ég að það sé alveg ljóst og viðurkennt að mörg af þessum smærri sveitarfélögum geta ekki tekið við stórum málaflokkum eins og málefnum fatlaðra og öldrunarþjónustu og heilsugæslu nema um sé að ræða verulegar sameiningar þannig að það viðurkenna flestir að forsenda fyrir svona stórum verkefnatilflutningi til sveitarfélaganna er sú að það verði um verulega sameiningar að ræða.