Hæstiréttur Íslands

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 14:14:43 (1494)

[14:14]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Hæstarétt sem er 37. mál þingsins á þskj. 40. Frv. fjallar í stuttu máli um að það verði ákveðið í lögum um Hæstarétt að til þess að ráðherra geti gert tillögu til forseta Íslands um nýjan hæstaréttardómara, þá verði Alþingi að staðfesta þá tillögu. Hér er með öðrum orðum verið að gera tillögu um að fara með býsna mikið öðrum hætti höndum um þessi mál en gert hefur hér á landi en einnig tíðkast í grannlöndum okkar þó að hér sé í raun og veru gerð tillaga um ekki ólíkt fyrirkomulag því sem tíðkast í Bandaríkjunum að því er varðar skipan dómara Hæstréttar.
    Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að setja inn þetta aðalefnisákvæði, en þar segir í b-lið:
    ,,Er ráðherra hefur ákveðið hvern hann hyggst gera tillögu um sem hæstaréttardómara leggur hann tillöguna fyrir Alþingi til samþykkis eða synjunar. Samþykki Alþingi tillögu ráðherra leggur hann hana fyrir forseta Íslands. Synji Alþingi staðfestingar á tillögu ráðherra gerir hann aðra tilnefningu og skal hún fá sömu meðferð.``
    Þessi efnisgrein, 1. gr. frv. 2. mgr., er í raun og veru meginbreytingartillaga þess og má segja að hún sé hluti af nokkuð víðtækum tillögum um breytingar á stjórnkerfinu sem hér hafa verið fluttar af okkur alþýðubandalagsmönnum að undanförnu og lúta að frv. til laga um yfirstjórn menningarstofnana og frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála þar sem gert er ráð fyrir því að ríkissaksóknari verði skipaður til takmarkaðs tíma í senn.
    Í 2. gr. frv. eru ný ákvæði varðandi það þegar dómarar í Hæstrétti frá leyfi frá störfum um stundarsakir og sömuleiðis ný ákvæði um það hvort hæstaréttardómari má stunda önnur dómarastörf. Í 2. gr. eru tvö ný ákvæði. Hið fyrra er um að gert er ráð fyrir því að ef hæstaréttardómari vill fara til annarra starfa í sex mánuði eða lengur þá verði hann að láta af dómarastarfinu. Þetta er fyrst og fremst stutt þeim rökum að við teljum að það sé óeðlilegt að hæstaréttardómari komist í ráðningarvensl eða hagsmunavensl af einhverju tagi við aðra aðila í þjóðfélaginu meðan hann í raun og veru heldur starfi hæstaréttardómara. Þess vegna er þessi tillaga flutt að hún hefur þann tilgang að koma í veg fyrir óeðlileg hagsmunatengsl einstakra aðila af einhverju tagi inn í Hæstarétt Íslands.
    Í öðru lagi er í þessari grein gert ráð fyrir því að hæstaréttardómari geti ekki stundað dómarastörf annars staðar en eins og menn vita þá er það þannig núna að hæstaréttardómarar geta stundað dómarastörf annars staðar, t.d. erlendis eins og kunnugt er, og komist í þá sérkennilegu stöðu að þeir séu jafnvel þar að fjalla að einhverju leyti um niðurstöður þess sama Hæstaréttar sem þeir eiga sæti í á Íslandi.
    Það er að vísu þannig að samkvæmt lögum um landsdóm hafa hæstaréttardómarar þar tilteknar skyldur og það er ekki gert ráð fyrir því að hrófla við þeim. Einnig var það þannig í lögum um Synódalsrétt að það var gert ráð fyrir því að hæstaréttardómarar hefðu þar tiltekna skyldu. Nú hafa þau lög verið felld úr gildi, voru felld úr gildi fyrir 2--3 árum eða svo, þannig að þau skipta ekki máli í þessu sambandi og í rauninni ekki lögin um landsdóm heldur vegna þess að hér er eingöngu um það að ræða ef hæstréttardómari fer í dómarastörf á vegum annarra aðila.
    Nú kann út af fyrir sig að vera rétt í þessu sambandi að skýra þetta mál örlítið nánar. Eru þess dæmi að hæstaréttardómarar hafi farið í önnur störf? Svarið við því er já. Þar geta menn t.d. litið á Mannréttindadómstólinn. Þar geta menn litið á dómskerfi EFTA og EES þar sem hæstaréttardómarar hafa komið eða koma við sögu. Það er óeðlilegt vegna þess að þar með eru þessir aðilar komnir í tengsl við dómstofnanir sem Hæstiréttur Íslands getur í raun og veru þurft að fjalla um síðar í sínum niðurstöðum að því er varðar t.d. einstök atriði EES-samningsins svo að ég nefni dæmi.
    Við flm. teljum því að þetta fyrirkomulag sé óeðlilegt og þess vegna segjum við: Ef maður vill fara í dómarastörf einhvers staðar annars staðar, þá kveður hann Hæstarétt. Hann getur auðvitað sagt upp störfum og sótt um á nýjan leik einhvern tíma síðar, ég skal ekkert um það segja og er engin afstaða tekin til þess í þessu frv., en það er gert ráð fyrir því að ef maður vill stunda dómarastörf einhvers staðar annars staðar, t.d. erlendis, þá verði hann þar með að kveðja Hæstarétt.
    Þetta má segja að séu í raun og veru þrjár aðalefnisbreytingar þessa frv. Í frv. er því ekki komið beint inn á þau mál sem hafa kannski verið rædd aðallega að undanförnu varðandi Hæstarétt og þó má segja að svo sé vegna þess að fyrir þinginu liggur núna eins og kunnugt er, hæstv. forseti, stjfrv. um breytingu á lögum um Hæstarétt. Þar er m.a. gert ráð fyrir því t.d. að einn dómari geti dæmt í tilteknum málum og farið þannig með dómsorð og niðurstöðu Hæstaréttar og þar er gert ráð fyrir því að það verði fjölgað í Hæstarétti í því skyni eins og stendur í greinargerð stjfrv., að flýta málsmeðferðinni í Hæstarétti. Þannig að verði þetta stjfrv. ofan á um fjölgun hæstaréttardómara þá er það greinilegt að núv. hæstv. dómsmrh. mun einhvern tíma á næsta ári skipa nýjan dómara í Hæstarétt og spurningin er þá um það hvort honum sé ekki treystandi til þess almennt séð. Mitt svar er bæði já og nei. Ég tel að núv. hæstv. ráðherra hafi sýnt það að mörgu sé hann samviskusamur ráðherra og góður embættismaður. En að hinu leytinu til er það alveg ljóst að það kemur fyrir hann og fleiri ágæta menn að falla í þá gryfju að kalla þarna inn menn sem bersýnilega eiga flokkspólitísk tengsl við viðkomandi ráðherra. Ég tel þess vegna að í ljósi ráðningar t.d. Péturs Hafsteins sem hæstaréttardómara þá sé nauðsynlegt að þessi ákvæði verði sett inn þannig að Alþingi fjalli um skipan nýs hæstaréttardómara og svo hæstaréttardómara framvegis til þess að um hæstaréttardómara verði helst hvorki meira né minna en allsherjarsátt í þjóðfélaginu. Þá er ég að tala um hliðstæða sátt um hæstaréttardómara og tekist hefur að ná t.d. um umboðsmann Alþingis. Ég tel að það sé hættulegt fyrir dómskerfið, réttarríkið Íslands, að menn séu skipaðir inn í Hæstarétt til verulega langs tíma fyrst og fremst á pólitískum forsendum. Og það er kannski dálítið til umhugsunar að Hrafn Bragason skuli hafa verið skipaður hæstaréttardómari einmitt þegar alþýðuflokksmaður fór með dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Það er nokkuð til umhugsunar að ekki sé meira sagt. Þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að á þessu máli sé tekið vegna þess að dæmin sýna að flokkspólitísk vensl hafa haft þarna áhrif og þannig má það alls ekki vera.
    Í annan stað hefur að undanförnu verið rætt nokkuð um launamál hæstaréttardómara. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þau mál hér, enda eru þau rædd á öðrum vettvangi, en ég vil þó segja það að mér finnst eitthvað meira en lítið bogið við þá hæstaréttardómara sem taka ákvörðun um að sækja sér yfirvinnugreiðslur í smuguna með þeim hætti sem þeir gerðu af því að Kjaradómur skildi eftir gat fyrir yfirvinnuákvarðanir á sínum tíma. Ég verð að segja alveg eins og er að þessi niðurstaða hæstaréttardómaranna setur í mínum huga spurningarmerki við þá sjálfa. Það væri rangt að taka þannig til orða að þetta setti spurningarmerki við Hæstarétt út af fyrir sig, en það setur spurningarmerki við þá sjálfa í mínum huga, hæstaréttardómarana, þegar þeir fara fram og smella sér í það að ná sér í 100 þúsund kall aukalega í yfirtíð á mánuði hverjum. Þetta mál hefur verið rætt annars staðar og verður rætt hér frekar, m.a. í tengslum við afgreiðslu fjáraukalaga þar sem þrír hv. þm. Alþb. hafa flutt tiltekna tillögu.
    Ég vil einnig segja í þessu sambandi að ég tel að það orki tvímælis, ég vil láta það koma fram sem mína skoðun, að túlka stjórnarskrárákvæðin um laun og tekjur hæstaréttardómra með þeim hætti sem gert er. Þar stendur eins og kunnugt er að þeir skulu einskis í missa í launum er þeir láta af störfum. Ég tel að það sé mjög langt seilst að láta þá hafa full laun hæstaréttardómara allan tímann til æviloka, jafnvel mörgum árum eða jafnvel áratugum eftir að þeir hafa látið af störfum. Ég tel þetta algerlega óeðlilegt fyrirkomulag. En ef það fyrirkomulag er hins vegar í gangi þá eru það auðvitað rök fyrir því að hæstaréttardómararnir eigi að fá lægri laun meðan þeir eru í vinnu af því að þeir fái svo góð eftirlaun og betri en allir aðrir í þjóðfélaginu ef ekki heiminum.
    Í þriðja lagi, virðulegi forseti, hefur það verið rætt nokkuð hér að undanförnu og ég ætla ekki að fara ítarlegar út í það heldur, en það er seinagangur mála hjá Hæstarétti og hjá saksóknaraembættinu. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem fram hafa komið hjá hæstv. dóms- og kirkjumrh. í þeim efnum að það er auðvitað óeðlilegt hvað hlutirnir taka langan tíma, ég tala nú ekki um þegar maður hefur rökstuddan grun um það að það sé ekki farið eftir faglegum reglum heldur geðþótta og smekk í hvaða málum er höfðað mál og hverjum ekki hjá embætti ríkissaksóknara og það fari eftir smekk og geðþótta hversu langan tíma það tekur hjá embætti ríkissaksóknara að komast að niðurstöðu. Um það mætti út af fyrir sig fara mörgum orðum en verður ekki gert hér enda ekki hluti af þessu frv.
    Í fjórða lagi hefur nokkuð verið rætt hér og ég ætla aðeins að nefna, hæstv. forseti, en það eru húsnæðismál Hæstaréttar, sem hefur aðeins verið rætt að undanförnu en þó ótrúlega lítið vegna þeirra tíðinda sem þar eru uppi þar sem ætlunin er að troða nýju húsi fyrir Hæstarétt ofan í Landsbókasafnið. Og svo heyrir maður tillögur eins og þær í þessum virðulega ræðustól að einhverjum dettur það í hug að fara með Hæstarétt inn í Landsbókasafnið. Ég vil segja fyrir mitt leyti að ég er algerlega andvígur því. Landsbókasafnið er bókasafn, er safnhús, og ég minnist þess að ég var einn þingmanna sem greiddu atkvæði á móti þáltill. fyrir allmörgum árum um að flytja Hæstarétt inn í Landsbókasafnið og ég tel að það sé alveg fráleitt og enn fráleitara en að fara að troða þessari byggingu niður á bak við Landsbókasafnið á bílastæðum Stjórnarráðsins eins og ætlunin er að gera núna. Ég hef ágætar hugmyndir um það hvar mætti koma Hæstarétti fyrir. Ég ætla ekki að fara yfir þær í smáatriðum og enda eru þær líka fyrir utan efni þessa frv. út af fyrir sig, ( ÓÞÞ: En í aðalatriðum?) en ég gæti í aðalatriðum nefnt þá hugmynd sem mér líst að mörgu leyti einna best á að Hæstiréttur fái aðstöðu þar sem nú er fangahús við Skólavörðustíg í Reykjavík og að fangahúsið verði inngangur inn í Hæstarétt. Og á bak við það hús á lóðinni niður að Laugavegsapóteki rísi hið nýja Hæstaréttarhús. Þá færi allt saman í senn, bæði sök og sekt, ranglæti og réttlæti, nútími og saga, þegar hinir virðulegu dómarar í Hæstarétti gengju í gegnum tugthúsið til embættisstarfa sinna í hinu nýja dómhúsi Hæstaréttar.
    Þessi atriði, virðulegi forseti, vildi ég nefna og segja það að ég tel að það frv. sem við alþýðubandalagsmenn flytjum sé í raun og veru mjög róttækt og það krefjist sérstakrar og ítarlegrar umræðu. Ég skora á hv. allshn. að taka það vandlega fyrir, skora á þá sem hér eru úr allshn. að fara að festa sér mjög rækilega í minni þá umræðu sem hér fer fram þannig að þeir geti fylgt málinu eftir á vettvangi allshn. þegar þar að kemur og tryggi það að þetta frv. verði afgreitt samhliða stjfrv. en að er mjög mikið atriði að menn láti sér ekki nægja sömu aðferð og oft er höfð, að taka stjfrv. og henda þingmannafrv. heldur afgreiði menn þetta hlið við hlið vegna þess að um dóms- og réttarkerfið á auðvitað að ríkja sátt á Alþingi. Það eru málefni sem ekki á að þurfa að afgreiða eftir hinum pólitísku flokkalínum.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frv. frekar og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.