Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 15:01:02 (1498)

[15:01]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Þau vöktu fyrst og fremst athygli mína ummæli hv. 5. þm. Austurl. sem lutu að fjárlagafrv. Eins og kunnugt er er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að sýslumannsembættum verði fækkað og með því náist fram ákveðinn sparnaður í rekstri ríkisins. Eins og hv. þm. vita hefur formaður Alþfl. vegið nokkuð að fjárlagafrv. og fundið því flest til foráttu vegna þess að hann telur að það sé ekki nándar nærri nóg að gert í niðurskurði og hefur lýst að þar þurfi að ganga miklu lengra og megi ekki einungis staðnæmast við að skera allt niður sem þar er lagt til heldur krefjist Alþfl. þess að skera miklu meira. Svo kemur hér einn af helstu foringjum Alþfl., hv. 5. þm. Austurl., og treystir sér ekki einu sinni til þess að standa við það sem í fjárlagafrv. stendur að þessu leyti til. Ég held að þeir hv. þm. Alþfl. ættu að undirbúa sig betur áður en þeir koma til umræðu í þingsal á þingflokksfundum.
    Í annað stað að því er lýtur að efni tillögunnar þá er það rétt hjá hv. 1. flm. að í nefnd sem skipuð var af hæstv. forsrh. og falið var að gera tillögur um flutning verkefna út á landsbyggðina kom fram sú tillaga að flytja stjórnsýsluverkefni út til sýslumanna. Í kjölfar þeirrar breytingar sem gerð hefur verið með aðskilnaði umboðsvalds og dómsvalds skapast vissulega skilyrði til þess að gera þetta. Í dómsmrn. var fljótlega, eftir að þessi skýrsla lá fyrir, farið að huga að því hvort þetta væri ráðlegt og með hvaða hætti væri skynsamlegt að standa að undirbúningi slíkra verkefna. Einn af sýslumönnum landsins, Þorleifur Pálsson, sýslumaður í Kópavogi, hefur kannað þessi mál allmikið og nú fyrir ekki löngu síðan fór ráðuneytið þess á leit við hann að hann tæki að sér forustu í nefnd sem kannaði möguleika á tilflutningi þessara verkefna og gerði síðan tillögur um slíkan flutning. Ég hef í framhaldi af því óskað eftir því að þau ráðuneyti sem hér koma helst til álita skipi fulltrúa í nefnd með Þorleifi Pálssyni, sýslumanni í Kópavogi, til þess að gera slíkar tillögur en þau ráðuneyti sem í dag fela sýslumönnum mest verkefni fyrir utan dómsmrn. eru, eins og hv. þm. vita, fjmrn. og heilbr.- og trmrn. Okkur sýnist að ýmis verkefni á sviði viðskrn. og félmrn. gætu einnig komið hér mjög fljótlega til athugunar og þau mætti flytja út til sýslumanna landsins

og þess vegna hefur dómsmrn. óskað eftir því að þessi tvö ráðuneyti tilnefni menn af sinni hálfu til þátttöku í slíku starfi.
    Við þurfum svo að huga að því hvaða forsendur þurfi að vera fyrir hendi til að slíkur flutningur eigi sér stað. Er rétt að minna á að þegar hafa verið teknar ákvarðanir í þessa veru. Ákveðinn þáttur sifjamála var til að mynda fluttur fyrir um einu og hálfu ári síðan frá dómsmrn. út til sýslumannsembættanna. En hvaða forsendur þurfa að vera fyrir hendi? Við þurfum að búa yfir mjög öflugum og traustum sýslumannsembættum og þess vegna er ekki ólíklegt að einhver samruni sýslumannsembætta sé nauðsynleg forsenda fyrir því að verkefni verði með góðu móti flutt út til embættanna og þau verði þannig styrkari og öflugri einingar í héraði.
    Í sjálfu sér tel ég ekki ástæðu til að blanda þessum tveimur málum saman því þjónustu sýslumannsembætta má auðvitað veita með margvíslegu móti. Við þekkjum það í dag að sums staðar eru útibú frá sýslumannsskrifstofum sem veita þjónustu á hinum minni stöðum og í einhverjum mæli hljótum við að byggja á slíkri þjónustu áfram eftir því sem efni leyfa á hverjum tíma og þjóðin hefur til ráðstöfunar til þess að veita þessa mikilvægu þjónustu. En kjarni málsins er þó sá að einhver samruni sýslumannsembætta er sennilega nauðsynleg forsenda fyrir því að verkefnaflutningur verði í verulegum mæli. Hitt er svo annað mál að það er ekki sjálfgefið að verkefnin verði öll flutt í einu, þetta er hægt að gera í ákveðnum þrepum og fá þannig fram ákveðna reynslu á slíkan flutning. En ég er þeirrar skoðunar að hann sé æskilegur, dómsmrn. hefur fyrir sitt leyti stigið fyrsta skrefið í þessu efni með því að færa verkefni út úr því ráðuneyti til sýslumannsembætta og ég er sannfærður um að það má gera í miklu ríkari mæli og undirbúningur hafinn að því. En það breytir í sjálfu sér engu þeim tillögum sem fyrir liggja um hagræðingu og sparnað og fram koma m.a. í fjárlagafrv.