Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 15:16:38 (1508)

[15:16]
     Gísli S. Einarsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla nú ekki að fara út í orðaleikfimi með meðflm. mínum og hæstv. dómsmrh. um þetta annað en ég heyri að menn eru sammála um að megintilgangurinn er að ná hagræðingu og síðan hvaða leiðir fara menn að því.
    Í þeirri þáltill. sem hér er til umræðu er vitnað í tillögur stofnana flutninganefndar og gert ráð fyrir eflingu embætta sýslumanna með því að fela þeim umboð fyrir fleiri ríkisstofnanir en gert er í dag. Það mætti fela þeim ýmiss konar leyfisveitingar, eftirlitsstörf og úrskurðarvald í héraði. Það má reyndar bæta því við að við myndugt sýslumannsembætti ætti að starfa einhvers konar þjónustufulltrúi eða umboðsmaður sem annars vegar leiðbeinir fólki um þann rétt sem það á gagnvart almennum stjórnvöldum og geti úrskurðað um deilumál. Ef við skoðum þau mál sem ráðuneytið er að fjalla um, þá getum við nefnt sem dæmi úrskurði dómsmrn. um barnaverndar-, umgengnis- og forræðismál, félmrn. um fundarsköp og uppákomur í sveitarstjórnum og umhvrn. um byggingar- og skipulagsmál. Það eru miklu fleiri dæmi sem hægt er að nefna. Sum eru merkilegri, önnur ómerkilegri. En við gerð þessara úrskurða situr vel menntað fólk í sérhverju ráðuneyti. Þessi störf á að flytja úr ráðuneytunum til umboðsmanna ríkisins í héraði.
    Það þarf enginn að segja mér að réttaröryggi sé ógnað með svona dreifingu, ekki á meðan héraðsdómstólum er dreift út um allt land. Við embætti sýslumanna ætti að efla þjónustusvið almannatrygginga og á kostnað þess sem hlaðið hefur verið upp í Reykjavík. Reyndar er fyrir löngu kominn tími til að skoða Tryggingastofnun ríkisins sérstaklega, en ætla má að umfang þeirrar tofnunar sé orðið slíkt að ekki mundi nokkur þar taka eftir þótt tveir til þrír tugir starfsmanna hyrfu til starfa utan Reykjavíkur. Hið sama má segja um Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Við embætti sýslumanna mætti vera fulltrúi þessarar stofnunar sem gæti aðstoðað fólk í sveitarfélögum við að komast í gegnum myrkviði þess kerfis. Húsnæðisstofnun reyndist treg til þess að reka sameiginlega húsnæðisskrifstofu á Akureyri en hefur ekki ljéð máls á því fyrirkomulagi annars staðar. Það er hins vegar ekkert álitamál að þessa þjónustu mætti fela embætti sýslumanna.
    Þessar lauslegu hugmyndir um eflingu embætta sýslumanna má heimfæra á landsbyggðina alla. Ástæða er hins vegar til að óttast að hver sem afdrif þessara embætta verða, þá muni tregðulögmálin verða alls ráðandi ef reyna á að flytja til þeirra verkefni.
    Einn er sá þáttur sem rétt er að drepa á, en það eru hugmyndir ríkisins um flutning verkefna til sveitarfélaga. Rætt hefur verið um flutning grunnskóla til sveitarfélaga, tilfærslu á sviði heilbrigðismála og yfirfærslu öldrunarmála og málefni fatlaðra til sveitarfélaga. Þetta er hluti af öllu þessu heila batteríi sem þarf að gera til þess að efla störf á landsbyggðinni. Það sama á reyndar við um öldrunarmál. Ef öll ábyrgð þeirra verður falin sveitarfélögum, þá verður að tryggja viðunandi yfirstjórn þessa málaflokks.
    Virðulegur forseti. Ég tel ástæðu til þess að horfa um öxl reiðilaust og fjalla um eldri tillögur um flutning ríkisstofnana.
    Árið 1972 var af forsrn. skipuð nefnd til að kanna staðarval ríkisstofnana og kanna hvaða breytingar komu helst til greina í því efni. Sú nefnd starfaði til 1975. Á þeim tíma kannaði nefndin 243 stofnanir og athugaði 157 þeirra sérstaklega. Í þessari nefnd, sem ekkert var að tvínóna við hlutina, voru meðal annarra Ólafur Ragnar Grímsson sem var formaður og Jón Baldvin Hannibalsson. Í umfjöllun um skýrsluna sagði sá síðarnefndi á fundi á fjórðungsþingi Vestfjarða 1990 að um skýrsluna og nefndarmenn hefði þetta verið sagt. Svo til hið eina sem hefur spurst eftir tillögur nefndarinnar eru eiginlega nefndarmennirnir sjálfir, fyrir utan það að þeir hafa flust, þá hafa þeir líka flust á milli flokka.
    Sú nefnd sem gerði þá tillögur lagði til flutning á fjölmörgum stofnunum og útibúum stofnana og eftirlitsstofnunum sem of langt mál er að rekja hér upp. En þær stofnanir og eftirlitsgeirar eru yfir 30 talsins.
    Virðulegur forseti. Hér að framan hefur verið drepið á ýmislegt varðandi tilflutning stofnana,

byggðastefnu og opinbera þjónustu á landinu. Breyting á embættum sýslumanna minnir okkur á það að nú má búast við því að lögboðna skoðun bifreiða þurfi að elta um langan veg. Þetta er nýlunda fyrir okkur í þéttbýlinu, en e.t.v. segja einhverjir að það sé kominn tími til fyrir okkur að þola það sem aðrir hafi þurft að búa við lengi. Það er sjónarmið út af fyrir sig. En litið á málið þeim augum að með minni þjónustu verða þjónustukjarnar veikari og styrkur sem heildar minni, þá er alvarleg þróun á ferðinni. Þess vegna á það að vera þingmönnum kappsmál ekki aðeins að snúast til varnar, heldur nýta samhentir þessi sóknarfæri sem núna gefast. Það má ekki reynast sannmæli um íslenska þingmenn að þeir hafi hér í heimi mörgu að sinna, en láti sig ekki varða um orð og gjörðir hinna.
    Virðulegur forseti. Þetta mál þarf skarpa og skelegga afgreiðslu og ég treysti þingi og ráðuneyti til að sjá til þess.