Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 15:28:20 (1513)

[15:28]
     Margrét Frímannsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp núna eru þau orð hv. þm. Gísla S. Einarssonar, sem er annar flm. þessarar tillögu, að hann treysti á það að þingmenn sameinist um afgreiðslu þessa máls sem þeir hér flytja og treysti á stuðning ráðuneytis og þingmanna fyrir þessari góðu tillögu. Ég er sammála því að tillagan er góð. Hins vegar velti ég því fyrir mér þegar þessi tillaga kom á borð okkar þingmanna hvað vakti fyrir flm. með flutningi hennar. Hv. 1. flm. tillögunnar, hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, hafði þá starfað í heilt ár ásamt mér og öðrum hv. þm. í stjórnskipaðri nefnd, nefnd sem forsrh. skipaði fyrir rúmu ári síðan til þess að fjalla um flutning stofnana út á land, enda er í greinargerð með tillögunni vitnað beint í þá skýrslu sem þessi stjórnskipaða nefnd skilaði af sér.
    Mig undrar svolítið þau vinnubrögð að einn nefndarmaður taki sig síðan til og taki út úr þessum tillögum stjórnskipuðu nefndarinnar ákveðna tillögu sem hann flytur hér ásamt öðrum hv. þm. Alþfl.
    Ég hlýt að líta þannig á ásamt öðrum hv. þm. frá stjórnarandstöðunni, þeim Kristínu Ástgeirsdóttur og Valgerði Sverrisdóttur, sem áttu sæti í þessari nefnd að með þessu séu stjórnarliðar að segja mér það, hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, að ríkisstjórnin ætli ekkert að gera með þessar tillögur, þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. forsrh. Og það þykir mér slæmt. Ef svo er ekki þá skil ég ekki þau vinnubrögð að taka þessa tillögu út úr öðrum tillögum sem nefndin stóð öll að.
    Það væri einnig vissulega ástæða til að ræða um þennan sífellda ágreining sem kemur fram milli stjórnarliða og ég verð að segja að ég er orðin hundleið á því að hlusta sýknt og heilagt á rifrildi milli einstakra stjórnarliða þessara stjórnarflokka. Það er stundum sagt um börn að þau hagi sér eins og hundur og köttur þegar þeim kemur ekki vel saman en það er hátterni sem hæfir ekki þingmönnum og kemur í veg fyrir málefnalega umræðu.