Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 15:30:58 (1514)

[15:30]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vona að truflun sú sem hv. 3. þm. Austurl. olli sé fyrir bí og hér fari fram málefnaleg umræða um þá till. til þál. sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson og Gísli S. Einarsson standa að. Það er nú svo að sú nefnd, sem hæstv. forsrh. skipaði til að skoða flutning starfa út á land, flutning starfa sem eru fyrir landsbyggðina í reynd, hefur skilað áliti. Mér kemur það þess vegna ekki á óvart þó að einn nefndarmanna sem taldi sig vera að róa austur með verkefni og mannafla hafi orðið nokkuð hissa þegar hann mætti hæstv. dómsmrh. með sýslumenn að austan á sinni skútu og hafi talið rétt að fara að athuga það hvaða hreppaflutningar þetta væru.
    Nú er það svo að dómsmrn. hefur komið með ýmis skilaboð um sparnað inn til þingsins og skal þá fyrst minnast á Bifreiðaskoðun Íslands. Sennilega hefur ekki í annað sinn verið logið meira að Alþingi Íslendinga en í þeim stórkostlegu sparnaðarhugmyndum sem þar voru settar fram. ( StB: Það var í tíð fyrri ríkisstjórnar sem þú studdir.) Nú heyrist úr hliðarsal að hv. 1. þm. Vesturl. sem ber nafn Sturlunga telur að ég hafi stutt það og það er rétt. Ég studdi þá ríkisstjórn en ég var aftur á móti ekki hrifinn af þessum tillögum. Það var annað mál.
    En eftir á að hyggja þá hef ég trúað þeim illa með tölfræðilegar upplýsingar úr dómsmrn. Ég fór í það að skoða þetta með hreppstjórana í fyrra og komst að því sem ég taldi mig vita að þeir voru láglaunahópur mikill og það átti að fara að setja miklu hærra launaðra lið til að gegna þeirra störfum en sem betur fór sigldi það upp fyrir og þegnskyldan eins og hefur verið unnin er þar enn.
    Hér er hreyft góðu máli. Við eigum það undir flm. hvort þeir stöðva það sem verið er að gera, byrja á því að láta ekki rústa þær stjórnsýslueiningar sem eru í dag. Það er talað um aðgengi fatlaðra. Hver hefur ekki heyrt minnst á það? Aðgengi fatlaðra er að það sé ekki stigi sem komi í veg fyrir það að þeir komist inn á ákveðnar skrifstofur. En hvað með aðgengi fatlaðra ef það er verið að lengja vegalengdir til þjónustu um fleiri tugi kílómetra? Er nokkuð verra hjá einhverjum fötluðum að biðja menn að bera sig upp stiga heldur en að fara fram á það að þeir séu keyrðir fleiri, fleiri kílómetra til að komast til þjónustunnar? Er ekki eðlilegt að menn hugsi rökrétt í þessu máli? Við vinnum enga stóra sigra í að flytja heilar stofnanir út á land. Það blasir við. En við hljótum að geta flutt eitthvað af þjónustunni út á land. Ef það er ekki hægt að treysta sýslumönnunum til að vera verkstjórar yfir þessu þjónustuliði, þá hverjum? Með lögregluna á bak við sig til að fylgja því eftir að liðið vinni en það virðist það sem stjórnsýslan hér telur mestu hættuna á ef einhver maður er sendur út á land til að vinna þar að hann snúist bara með landsbyggðinni gegn höfuðstöðvunum og fari að vinna gegn þeim.
    Hér hefur verið minnst á Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég tel það skynsamlegt. Það hefur verið minnst á Tryggingastofnun ríkisins. Ég tel það líka skynsamlegt. Ég vil nefna fleiri stofnanir, eins og Heilbrigðiseftirlitið. Hvers vegna væri það óeðlilegt að heilbrigðisfulltrúarnir ynnu hjá sýslumönnum, mættu þar til

starfa, yrðu skráðir að þeir hefðu mætt á réttum tíma á morgnana til vinnu ( Gripið fram í: Er ekki best að hafa stimpilklukku?), hefðu stimpilklukku og síðast en ekki síst færu að lögum eftirleiðis við stjórnsýsluathafnir, m.a. eyddu ekki sönnunargögnum. Og hvað með Vinnueftirlitið? Er nauðsynlegt til að halda uppi flugi innan lands að tryggja það að þessar eftirlitssveitir panti allar flugfar á föstudegi til að komast út land á mánudegi og svo sé allt liðið á dagpeningum úti á landi og steðji svo í bæinn á fimmtudegi því það er of mikil áhætta að taka seinasta flug eins og menn vita, menn verða að hafa í það minnsta einn dag upp á að hlaupa. Þannig eru þessu háttað í dag, meira og minna. Meira að segja erum við að fá frumvörp þar sem menn eiga að fara að valsa yfir land annarra manna til veiða og gera grein fyrir sér ef þannig stendur á. Svona látið í það skína að þeir megi vera á fullri ferð án þess að þurfa að gera neina grein fyrir sér. Það er kannski hlutur sem menn vita. Menn hafa leikið það að fara út á land og tilkynnt að þeir væru eftirlitsaðili frá þessari eða hinni stofnuninni, pantað hótelherbergi og labbað inn í næstu fyrirtæki. Þetta hefur verið leikið vegna þess að þetta lið þarf yfirleitt engum skilríkjum að skila yfir það hvaða starfi þeir eru að gegna.
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst anda góðu úr Heydölum þessa stundina að fá upp hugmyndir um það að það stjórnsýslukerfi, sem er úti á landi í dag, fái fleiri verkefni þannig að það sé ekki hægt að bera á þá iðjuleysi og aðrar stofnanir fái skamman tíma til að hugleiða það hvernig þeir skipi sínum málum og þessi starfsemi geti þróast á þann hátt að þjónustan verði færð til fólksins. En grundvallaratriðið er að gera sér grein fyrir því að ef menn leggja sýslumannsembættið niður núna þá eru menn að flytja þjónustuna burtu. Það er algjörlega út í hött að tala um að það sé hægt að leiðrétta það eitthvað aftur með eflingu embættanna seinna. Hvenær ætla þessir menn að efla embættin? Þegar þeir eru farnir úr stólunum? Ætla þeir þá að fara að efla embættin? Hæstv. dómsmrh. er farinn úr salnum og er trúlega að sinna talningu þessa stundina ( Gripið fram í: Hann er að leggja þá niður.) en það hefði verið sanngjarnt að bíða til jóla með það. ( Gripið fram í: Hann fór að gá að sýslumönnum.) (Forseti hringir.) Nú er komið rautt ljós og forseti þess mjög vel meðvitaður þannig að ég hef hugsað mér að láta hér staðar numið.