Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 15:44:04 (1518)

[15:44]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. kvartaði yfir því og lét það koma í ljós að það væru undarleg vinnubrögð af minni hálfu að standa fyrir þeirri þáltill. sem er til umræðu. Það var ekki ég sem átti frumkvæðið að þessu máli eftir að niðurstöður okkar góðu nefndar lágu fyrir. Það var hæstv. dómsmrh. Það var hann með hugmyndum og tillögum sínum við fjárlagagerð sem virti að vettugi okkar tillögur, stjórnskipaðrar nefndar hæstv. forsrh. Þannig að það var hann sem hvatti okkur til þess að grípa til einhverra ráða til að tryggja það að sparnaðurinn sem hann ætlaði sér að ná í ráðuneytinu mundi eigi að síður nást fram og þess vegna vildum við leggja áherslu á þessa leið. Ég hafði rætt um þetta við hæstv. dómsmrh. áður en ég lagði þessa tillögu fram og hann vissi að hún var í undirbúningi, þannig að það var ekki ég sem átti frumkvæðið, það var hæstv. dómsmrh. Ég hefði óskað þess að hann hefði gripið okkar valkost fremur en þennan sem leiðir að lokum til hækkunar á útgjöldum ríkissjóðs eins og ég hef sagt frá. Það er ljóst að þetta muni leiða til hækkunar á útgjöldum ríkissjóðs á árinu 1995 og á árinu 1996 þegar upp verður staðið en þeir sem þjónustuna þiggja munu líka bera þann aukakostnað sem af því hlýst að þurfa að leita lengra eftir þjónustunni yfir fleiri fjöll og firnindi.