Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 15:46:12 (1519)

[15:46]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að benda á það að hér er blandað saman tveimur málum, annars vegar endurskoðun á sýslumannsembættum og þá með tilliti til þess hvaða breytingar hafa orðið m.a. á samgöngumálum og svo hins vegar flutningi verkefna til sýslumannsembættanna. Það er ástæðulaust að blanda þessum verkefnum saman og ég held að það liggi ekki fyrir neinar yfirlýsingar um það eða upplýsingar að forsrh. hafi ætlað sér að leggja þetta mál á hilluna. Ég vil einnig taka það fram, vegna þess að ég held að það sé full ástæða til þess, að þegar fjárlagafrv. var lagt fram þá var það sem slíkt samþykkt athugasemdalaust af alþýðuflokksmönnum. Þessar athugasemdir eru nokkuð sérkennilegar og síðbúnar og ég held að það sé rétt að benda þingheimi á það.