Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 15:47:01 (1520)

[15:47]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þessi tillaga var ekki afgreidd athugasemdalaust í ágústmánuði þegar hún var til umræðu í ríkisstjórn. Ég tjáði dómsmrn. það sérstaklega, aðstoðarmanni hæstv. dómsmrh., að ég væri andvígur þessari tillögu. Ég væri ekki bara andvígur þessari tillögu, ég mundi berjast gegn framgangi hennar vegna þess að hún væri óskynsamleg. Þessi skoðun kom líka fram í mínum þingflokki í hvert skipti sem þetta mál var til umræðu. Að segja það hér að um tvö mál sé að ræða, annars vegar að fækka embættum og hins vegar að endurskoða með flutningi nýrra verkefna til embættanna, þá er hér um eitt og sama málið að ræða vegna þess að þegar við mótuðum okkar tillögur í stofnananefndinni þá gerðum við ráð fyrir sama fjölda embætta og staðsetningu og það skiptir sköpum þegar heildarstjórnsýsluendurskoðun á sér stað að það verði ekki tekin einn afmarkaður þáttur út úr og þannig slitinn úr samhengi. Þannig að hér er um eitt og sama málið að ræða og það er forgangsmál þessarar ríkisstjórnar, staðfest í hvítbók, að flytja verkefni af höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina en ekki að fækka opinberum störfum þar. En það er einmitt það sem þessi tillaga felur í sér og ekkert annað. Það er ekki hlutverk og stefna ríkisstjórnarinnar heldur þvert á móti fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Þess vegna þurfti að tvítaka það í hvítbókinni í upphafi starfa þessarar ríkisstjórnar.