Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 15:50:01 (1522)

[15:49]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni ágætis tillaga sem ég get tekið undir í einu og öllu. Það hefur verið farið um hana viðurkenningarorðum hér á undan mér og ég ætla ekki að fjalla um hana mjög mikið í mínu máli, tel einfaldlega að þetta eigi fullkomlega heima að skoða málið með þeim hætti sem hér er lagt til. En ég kemst ekki hjá því að vekja athygli á því í hvers konar umhverfi þetta mál er. Það hefur nýlega verið upplýst af hv. 1. flm. þessarar þáltill. að hann hafi flutt hana sem andsvar eða nauðvörn við ákvörðun hæstv. dómsmrh. að leggja til í fjárlagafrv. að sýslumannsembætti verði sameinuð á landsbyggðinni. Það hefur ekki komið fram hjá þeim sem hafa tekið til máls og hafa flutt þessa tillögu hvernig stendur á því að fjárlagafrv. var samþykkt á þingflokksfundum hjá þeim í Alþfl. því það hlýtur þó að hafa verið gert. Eftir því sem mér hefur verið bent á, þá mun það a.m.k. vera venja að samþykkja fjárlagafrv. á þingflokksfundum. Það mun vera ný aðferð ef menn eru hættir því. Og það væri fróðlegt að heyra svör þeirra alþýðuflokksmanna í þessu efni.
    Hv. 5. þm. Austurl. tók þannig til orða hér áðan að hann hefði þurft að grípa til einhverra ráða og þetta voru þessi einhver ráð að flytja þáltill. og stela glæpnum frá ríkisstjórnarflokkunum sameiginlega sem áttu þessa tillögu.
    Hv. 4. þm. Vesturl. hvatti menn til þess að láta hendur standa fram úr ermum og skila þessu skarplega og skelegglega af sér í afgreiðslu þingsins og það kann vel að vera að menn verði tilbúnir til þess að hjálpa til við það. Ég efast reyndar ekkert um það. En það hlýtur þá að byggjast á því að menn séu ekki búnir að valda skaða með því að samþykkja fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir. Það hlýtur að verða að vekja athygli á því hvers konar vinnubrögð eru hér á ferðinni. Við erum að tala um alls konar umræður sem eru að fara fram um breytingu á stjórnsýslusviðinu. Það er verið að tala um að sameina sveitarfélög og það á að kjósa um það eftir nokkra daga. Það er verið að tala um að færa verkefni til sýslumannsembættanna og um það er tillaga til umræðu í hv. Alþingi. Það er verið að tala um það í fjárlagafrv. að fækka sýslumannsembættunum án tillits til þess hvað kemur út úr t.d. sameiningu sveitarfélaganna. Eru þetta nú gáfuleg vinnubrögð? Ég segi nú bara það. Ég spyr hv. þm. sem að þessu standa hvernig þeim lítist eiginlega á þetta. Og þessi tillaga sem hér er á ferðinni fjallar ekki um að spara. Hún fjallar um það eins og hv. 5. þm. Austurl. sagði að auka kostnað og það verulega. Ég ætla ekki að nefna um það tölur hvort kostnaður ríkisins eykst þannig að það sjáist á prenti. En ég get nefnt tölur sem menn hljóta að skilja sem segja manni það að kostnaður neytendanna mun aukast verulega við þessa ákvörðun.
    Það er t.d. þannig að í fjárlagafrv. kemur það fram að kostnaður á íbúa við þjónustu sýslumannsembættisins í Borgarnesi er nú 5.698 kr. Eftir að búið er að sameina þessi embætti, þá er þessi kostnaður talinn verða 4.896 kr. Hver er sparnaðurinn? Hann er 802 kr. og hvað halda menn að margir Akurnesingar mundu geta keyrt fyrir 802 kr. fram og til baka milli Akraness og Borgarness til þess að sækja þjónustuna sína? Þeir kæmust ekki einu sinni hálfa leiðina fyrir þessa peninga. Það kostar samkvæmt reikningum ríkisins 2.240 kr. að keyra á milli Borgarness og Akraness báðar leiðir en 802 kr. á íbúa er þessi sparnaður. Hvers lags vinnubrögð eru það? Þetta eru nákvæmlega sams konar vinnubrögð og sparnaður Bifreiðaskoðunar Íslands er. Það er bara horft á tölur í bókhaldi fyrirtækisins þegar verið er að taka ákvarðanir, en það skiptir engu máli hvað þetta kostar fyrir neytendurna. Svona geta menn ekki hagað sér. Það er hægt að haga sér þannig í einhverju hf.-fyrirtæki úti í bæ ef það hefur ekki einokunaraðstöðu. En það er alla vega ekki hægt að haga sér svona á hv. Alþingi að bjóða mönnum upp á sparnaðartillögur af þessu tagi til þess að fjalla um í þinginu. Og ég verð að segja það alveg eins og er að margt hefur maður nú séð hér og ýmislegt verið gagnrýnt og sumt kannski um of af stjórnarandstöðunni. En þessi vinnubrögð er ekki hægt að verja. Það er ekki hægt að verja þau og ég er ekkert hissa á því þó að hv. 5. þm. Austurl. og hv. 4. þm. Vesturl. taki sig til og flytji tillögu til þess að mótmæla svona vinnubrögðum eins og hér eru á ferðinni. En ég vildi gjarnan að þeir sýndu okkur það með hvaða hætti þeir mótmæltu þessu þegar þetta var samþykkt á þingflokksfundum í Alþfl.
    Ég ætla að nefna aðra tölu svona til umhugsunar fyrir menn vegna þess að ég þekki það. Það er munurinn á því hvað það kostar þá sem núna búa í Búðardal að sækja þessa þjónustu ef þetta verður að

veruleika. Það er núna talið að kostnaðurinn á íbúa sé 7.196 kr. en það muni verða kostnaður á íbúa 6.108 kr. eftir breytinguna, sem sagt, 1.088 kr. Mundi einhver hv. þm. treysta sér til þess að komast á milli Búðardals og Stykkishólms fyrir þúsundkall? Ég held ekki. Það er á sömu bókina lært. Og þannig hygg ég að megi finna tölur á Austurlandi og annars staðar þar sem menn eru að tala um að leggja niður þessa þjónustu. Ég er ekki einn af þeim sem segja að ekki megi endurskoða sýslumannsembættin með það fyrir augum að spara. En það á að skoða með það að markmiði að menn séu að tala um sparnað fyrir neytendurna líka og það á ekki að samþykkja tillögur hér á hv. Alþingi sem valda aukakostnaði fyrir neytendur og færa þannig með þessum hætti sem hér hefur verið gert margfaldan kostnað frá ríkinu til neytendanna umfram það sem verið hefur á undanförnum árum.