Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 16:02:17 (1529)

[16:02]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið spurt um það hvernig hafi verið staðið að undirbúningi þessa máls í þingflokki Alþfl. Ég hef skýrt frá því hver aðdragandinn að því var og ég sagði frá því að ég hefði sérstaklega haft samband við dómsmrn. Ég ætlaði að hafa samband við hæstv. dómsmrh. en aðstoðarmaður hans svaraði í staðinn og kom skilaboðum rækilega um það um miðjan ágúst að ég væri andvígur þessum hugmyndum. Og ég mundi ekki bara vera andvígur þeim, ég mundi berjast gegn þeim og þetta staðfesti ég rækilega í mínum þingflokki ef ég man rétt 16. ágúst og tilkynnti sérstaklega á fundi á Breiðdalsvík með hv. þm. Agli Jónssyni og öðrum þingmönnum Austurlands auk sveitarstjórnarmanna að ég hefði gert grein fyrir þessari afstöðu minni í þingflokki Alþfl. Það átti því ekkert að koma hv. þm. Agli Jónssyni á óvart og síst af öllu á óvart hæstv. dómsmrh. Þetta hefur verið afstaða mín allt til þessa frá því að ég heyrði um þessa hugmynd fyrst þó ekki væri nema af því að hún sparar ekki heldur dregur úr þjónustu og eykur kostnað fyrir fólkið í landinu og fækkar opinberum störfum á landsbyggðinni sem við höfum aldrei ætlað okkur að stefna að.