Skýrsla um sjúkrahúsmál

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 10:35:04 (1532)

[10:35]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að kveðjar mér hljóðs um störf þingsins í krafti 3. mgr. 50. gr. þingskapa sem veitir þingmönnum heimild til þess að ræða í stuttu formi, gera athugasemdir í tvær mínútur í senn ef ég man rétt. Það er því öllum opið að taka þátt í þessari umræðu. Það er nú ærin ástæða

til þess að gera hér athugasemd. Þó að hæstv. heilbrrh. sé fjarverandi þá sendi hann alþjóð í gegnum fjölmiðla en ekki Alþingi Íslendinga skýrslu frá starfsmönnum sínum sem verið hafa í vinnuhópi um nokkurt skeið til að fjalla um sjúkrahúsamál í landinu. Þetta var ein aðalfrétt á fjölmiðlum í gærkvöldi án þess að við vissum nokkuð hvað þarna væri á ferðinni frekar en aðrir, án þess að forstöðumenn stofnana sem í hlut eiga og hugmyndin er að leggja af í núverandi formi, það er gjörbreytta rekstrarformi á, hefðu fengið um það nokkra vitneskju. Það sem upp úr stendur í fréttunum sem svona stærsta atriðið í þessu er að á Austurlandi, á eystri helmingi landsins í raun, austan Akureyrar og austan Selfoss skuli ekkert sjúkrahús starfa sem undir því nafni fái risið í framtíðinni. Þetta eru hugmyndirnar sem við fáum eftir að ríkisstjórnin hefur verið að reyna að skreyta sig með einhverjum hugmyndum um flutning ríkisstofnana út á land en reyndin er í raun að saxa niður og leggja af. (Forseti hringir.) Á Austurlandi rafmagnseftirlit, sýslumannsembætti og nú sjúkrahús fyrir heilan landsfjórðung sem á að fella af og ég tel að hér sé stóralvarlegt mál á ferðinni. (Forseti hringir.) Virðulegur forseti, ég óskaði eftir utandagskrárumræðu um þetta mál strax og heilbrrh. kemur til landsins. En hann var nú svo smekklegur að senda þessa skýrslu og láta starfshópinn kynna hana eftir að hann er farinn af landi brott. En það er vonandi að það rætist úr því og þá getum við rætt þetta nánar.