Skýrsla um sjúkrahúsmál

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 10:41:13 (1536)

[10:41]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt og lýsa furðu minni yfir þeim vinnubrögðum sem hér eru í frammi höfð. Það þarf enginn að segja mér að embættismenn taki það upp

á sitt eindæmi að fara í fundaherferð með slíka skýrslu sem hér er um að ræða. Við vorum í viðtölum í fjárlaganefnd núna rétt áðan við forráðamenn sjúkrahúss út á landi og þeir sögðu okkur að fyrsti fundurinn um þessa skýrslu væri á Norðurlandi á morgun. Þannig að hér er alvara á ferðinni. Þetta mál vekur meira en litla furðu í þeim landshlutum þar sem á að leggja sjúkrahúsþjónustu gjörsamlega af á þeim forsendum að aðgengi að sjúkrahúsinu sem er í þeim landshluta svo ég taki nú orðrétt upp orð embættismanns í fréttum í gær, að aðgengi væri með þeim hætti að það væri ekki hægt að reka sjúkrahús á slíkum stað.
    Hér er mikil alvara á ferðinni og ég tek undir það heils hugar að Alþingi verður að láta þessi mál til sín taka. Þetta vekur ugg að minnsta kosti þar sem á að leggja sjúkrahúsin algerlega af.