Skýrsla um sjúkrahúsmál

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 10:54:42 (1543)

[10:54]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér hefur verið fullyrt að það sé ekki nein pólitík í þessu nefndaráliti, hér séu aðeins sérfræðingar sem hafi verið að vinna. Ekki veit ég það hvort þetta séu allt aðilar sem engar skoðanir hafi á pólitík sem sitja í nefndinni, ég hef ekki þekkingu til að kveða upp úr um það, en mér finnst óeðlilegt annað en erindisbréfið sem nefndin fékk verði afhent þinginu og það strax vegna þess að niðurstaða nefndarinnar er nákvæmlega sú sama og hæstv. fyrrv. heilbrrh. boðaði að væri hið eina rétta sem ætti að gera á Íslandi. Reyndar hafði hann Akureyri með upp á punt því það er nokkurs konar tískuorð að taka Akureyri með þegar menn vilja skipta landinu í tvö svæði og halda því fram að Akureyri sé höfuðborg fyrir dreifbýlið en Reykjavík sé höfuðborg --- fyrir hvað? Ég veit ekki hvað, ef sú stefna er rétt. En hæstv. ráðherra fullyrðir hér að þetta sé allt sérfræðingalið sem þarna hafi unnið og ég skora á hæstv. ráðherra utanríkismála að tryggja það að erindisbréfið berist þinginu strax. Hvaða erindisbréf var þessari nefnd sett? Var henni fyrst sagt að vinna sitt verk og leggja svo af stað eins og trúboðar um landið?