Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 12:39:31 (1561)

[12:39]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég mun í lok umræðnanna fara almennt orðum um þær, en ég gat ekki staðist mátið að veita hér andsvar við ræðu hv. síðasta ræðumanns vegna þess að mér finnast þau sinnaskipti sem hann sýnir í sínum málflutningi mjög gleðileg. Ég man ekki betur en hann hafi verið sá fyrsti hæstv. ráðherra á sínum tíma, samgrh. sem neitaði að fara eftir áliti umboðsmanns Alþingis og málið hafi þurft að fara fyrir dómstóla og tapast fyrir dómstólum. Þessi sinnaskipti hans og málflutningur hans nú varðandi álit umboðsmanns og hvernig eigi að taka tillit til þess innan stjórnsýslunnar finnast mér ákaflega gleðileg. Hann rakti hér eitthvert mál eftir minni en ég geri það einnig og ég veit ekki betur en að þá fyrst hafi reynt á það þegar hann var ráðherra hvort stjórnsýslan og ráðherra færi eftir áliti umboðsmanns eða ekki. Hann hafi kosið að gera það ekki. Málið hafi síðan farið fyrir dómstóla og þar hafi það tapast.