Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 12:40:39 (1562)


[12:40]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það væri út af fyrir sig æskilegt að við hefðum söguna í höndunum, ég og hv. þm. Björn Bjarnason, ef við viljum fara að rifja þetta upp, en það var einmitt þetta tilvik sem ég nefndi sem mér virðist að hv. þm. sé eftir minni að vitna í og fer þar ekki rétt með. Staðreyndin er ósköp einfaldlega sú að einmitt í framhaldi af þessu áliti umboðsmanns var unnið frv. til laga um breytingu á viðkomandi lagaákvæðum í samgrn., lagt fram af mér sem samgrh. og lögfest þannig að sú lagastoð sem umboðsmaður einmitt í sínu áliti taldi ótrygga var styrkt í beinu framhaldi af áliti hans. Það sem hins vegar var ekki að mati ráðuneytisins unnt að gera var að breyta þeirri framkvæmd sem hefð var orðin fyrir í ráðuneytinu fyrr en búið væri að endurskoða lögin. Og það var um það sem umræðan snerist og það er væntanlega það sem hv. þm. er að vísa hér í. Það var ekki svo að ráðuneytið eða ég sem ráðherra tæki ekki mark á áliti umboðsmanns hvað þetta snertir, þarna var ábótavant og áfátt ákveðnum atriðum. Það var beinlínis ráðist í að vinna bót á því eins og ég er sannfærður um að hv. þm. man ef hann rifjar þetta betur upp.
    Spurningin snerist hins vegar um það hvort áður en til þess kæmi væru jafnframt forsendur til að breyta þeirri framkvæmd sem tíðkast hafði í ráðuneytinu varðandi tiltekin atriði og að áliti lögfræðinga var ekki talið rétt að standa þannig að málum, heldur bæri að endurskoða lögin, framkvæma þá endurskoðun á lögunum sem umboðsmaður benti á að þörf væri fyrir og koma framkvæmdinni þannig og málinu öllu saman í traustan farveg. Svona lá nú þetta mál í grófum dráttum ef ég man rétt. Ég tek það fram eins og hv. þm. að ég er að rifja þetta hér upp, en út af fyrir sig getum við farið yfir þessa sögu við betra tækifæri.