Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 12:43:50 (1564)

[12:43]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta heitir nú bara á góðri íslensku að lemja höfðinu við steininn, þ.e. tvennt er ekki rétt sem hv. þm. Björn Bjarnason endudrtekur hér, það að þetta sé staðreynd að ég sé fyrsti ráðherrann sem neitað hafi að fara eftir áliti umboðsmanns Alþingis. ( ÓÞÞ: Hver var fyrstur?) Það eina sem er rétt í málinu er það að þetta mun vera fyrsti úrskurðurinn sem umboðsmaður felldi eða fyrsta álitið sem hann lét í ljós þar sem fram kom gagnrýni á tiltekna þætti í stjórnsýslunni og ábendingar um úrbætur. Ég reyndi að útskýra það fyrir hv. þm. Birni Bjarnasyni og öðrum hér og það hefur ekki tekist, a.m.k. ekki í því tilviki sem lýtur að hv. þm. Birni Bjarnasyni. Nú kann að vera að aðrir þingmenn hafi skilið þetta en ekki sem sagt hv. þm. Björn Bjarnason. Það sem ég reyndi að útskýra var að það var talið að áliti þeirra sem um þetta fjölluðu, lögfræðingum og ráðgjöfum samgrn., að rétt viðbrögð við þessum ábendingum umboðsmanns væru þau að framkvæma þá endurskoðun lagaákvæðanna sem hann vísaði til og koma þannig framkvæmdinni í traustara horf. En það voru hins vegar ekki talin efni til þess eða staða til þess, m.a. til þess að ekki yrði um mismunun að ræða gagnvart þeim þolendum fyrir og eftir úrskurðinn, að breyta framkvæmdinni fyrr en lagabreytingin hefði átt sér stað. Þetta hljóta menn að geta skilið. Þetta er tiltölulega einfalt að mínu mati. Og þess vegna er það rangt, beinlínis rangt að ég hafi verið fyrsti ráðherrann til þess að hafa að engu álit umboðsmanns. Það er akkúrat öfugt. Þetta var prófmál um það að álit umboðsmanns hafði áhrif. Það leiddi til úrbóta á þessu sviði. Það leiddi til endurskoðunar laganna og traustari framkvæmdar í kjölfarið. Hitt er svo að vísu rétt að þetta var visst prófmál og þarna fór fram umræða í fyrsta sinn um það hvernig ber að bregðast við þegar svona álit kemur fram. Staðreyndin var sú að það hafði ekki verið mikið rætt hvernig bæri að taka við svona áliti frá umboðsmanni og hvað bæri að gera í framhaldinu þannig að af þessu varð nokkur umræða og það er það sem hv. þm. Björn Bjarnason rámar eitthvað í en greinilega ekki nógu glögglega.