Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 13:32:05 (1567)

[13:32]
     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Umræður um skýrslu umboðsmanns Alþingis hljóta að vekja nokkra athygli og ég vænti þess að orð hv. síðasta ræðumanns fái sæmilegan hljómgrunn þegar hann benti á að þingmenn hlytu að veita málinu í heild sinni athygli og þeirri þróun sem orðið hefur. Það er rétt að umsvif þessa embættis hafa aukist, en það er auðvitað af þeim ástæðum að stjórnvöld hafa haft í frammi tilburði eða framkvæmd mála á þann hátt að það hefur verið ástæða til umkvörtunar og umkvartanir hafa leitt til ákveðinnar niðurstöðu eða álits umboðsmannsins.
    Það vekur athygli mína, virðulegi forseti, að mikill mismunur er á fjölda mála sem stafa af framkvæmd ráðuneyta sem fjalla um málefni atvinnuvega. Þegar það er skoðað kemur í ljós að ráðuneyti sem fara með sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál eru tilefni hvort um sig til annars tugs ábendinga eða mála sem a.m.k. hljóta umfjöllun umboðsmanns Alþingis á meðan ráðuneyti sem fjalla um mál annarra atvinnuvega eru sárasjaldan tilgreind og hafa sárasjaldan verið tilefni til slíkra mála.
    Það hlýtur að vekja umhugsun um það á hvaða leið við erum sem löggjafarvald og sem framkvæmdarvald þegar lög og framkvæmd þeirra eru með þeim hætti um heila atvinnuvegi að fjölmargir einstaklingar og fjölmörg einstök fyrirtæki sjá ár eftir ár ástæðu til að bera upp mál sín við umboðsmann Alþingis sökum þess að þeim þykir réttur sinn hafa verið fyrir borð borinn með einhverjum hætti. Og ég hlýt að velta því fyrir mér, virðulegi forseti, í samanburði við það sem ég nefndi um ráðuneyti viðskipta og iðnaðarmála þar sem við þekkjum af reynd að löggjöf og framkvæmd er með allt öðru sniði og alls ekki slík bein afskipti af starfsemi einstaklinga og fyrirtækja eins og þekkist í hinum tveimur ráðuneytunum.
    Í annan stað, virðulegi forseti, hefur nýútkomin skýrsla skattanefndar félags löggiltra endurskoðenda, vakið athygli á málum sem sannarlega er getið um í skýrslu umboðsmannsins. Skýrsla skattanefndarinnar hefur þegar komið til umræðu eða verið nefnd í þessari umræðu. Ég segi fyrir mig, virðulegi forseti, að þar eru á ferðinni ábendingar aðila sem eru sérfróðir um skattamál. Þeir hafa talið í skýrslu sinni ástæðu til að benda á ágalla í löggjöf og á framkvæmd löggjafar sem varða jafnræði þegna gagnvart framkvæmdarvaldi, sem varða hlutlægni dómstóls eða úrskurðaraðila, þar sem er á ferðinni yfirskattanefnd, og síðast en ekki síst sem varða tilurð löggjafar eða breytingar á lögum um skattamál, sem í sjálfu sér hljóta að vera meðal þeirra laga og framkvæmdaratriða sem snerta hvað mest daglegt líf og afkomu einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja. Það segir sig sjálft.
    Þessu til viðbótar, virðulegi forseti, hefur vakið athygli mína ein ábending til viðbótar frá löggiltum endurskoðendum sem ég tel eiga erindi til okkar þingmanna allra, þ.e. að lög um tekjuskatt og eignarskatt hafi ekki aðeins ekki staðist tímans tönn heldur alls ekki fylgt þeim breytingum sem orðið hafa á atvinnuháttum og þjóðlífi. Ég tel það vera í raun áfellisdóm ekki aðeins yfir fjmrn. heldur okkur þingmönnum. Mér finnst skipta máli að þessi lög nái að fylgja eftir breytingum sem þessum, ekki síst á þeim tíma sem við erum nú. Við erum nú að ganga fram til verulegra og meiri breytinga í frjálsræðisátt í viðskiptalífi öllu, í viðskiptum okkar við aðrar þjóðir sem hljóta að hafa mjög miklar breytingar á starfsemi atvinnulífsins hér heima. Ekki einasta er hér um að ræða þær atvinnugreinar sem stunda útflutning á vörum eða innflutning á vörum, framleiðslu á vörum eða þjónustu heldur líka þær greinar sem stunda viðskipti með fjármagn. Og ábendingar endurskoðendanna fjalla líka einmitt um skattlagningu og skattarétt þeirra sem á því sviði starfa.
    Í síðasta lagi, virðulegi forseti, varðandi skattamál, þá tel ég mjög umhugsunarvert ef ekki ámælisvert að gildandi reglur um framkvæmd laga um tekjuskatt og eignarskatt eru sennilega jafngamlar og elstu núlifandi fjármálaráðherrar eða því sem næst. Þær fylla þrjá áratugi með mjög litlum breytingum, þrátt fyrir að skattalögin sem slík hafi tekið miklum breytingum á sama tíma. Ábendingar sérfróðra manna um skattamál hafa komið fram aftur og aftur en samt sem áður eru í framkvæmdinni viðhafðar reglur sem eru, svo að ég noti daglegt mál, hundgamlar og úreltar. Mér þykir skipta máli að það verði tekið til hendinni við þessa hluti.
    Þess utan, virðulegi forseti, er athyglivert að á undanförnum árum hefur umboðsmaður vakið athygli okkar þingmanna á málefnum þeirra sem eiga umsóknir um stöður eða réttindi til ráðuneyta eða stofnana á vegum þeirra. Sem betur fer er aðeins eitt mál af því tagi í þessari skýrslu sem umboðsmaður hefur lokið umfjöllun um á sl. ári, en það á erindi við utanrrn. Upp úr málinu hefur verið lesið okkur þingmönnum til ábendingar, en í aðalatriðum vek ég athygli á að fram kemur í gögnum umboðsmanns að utanrrn. og varnarmálaskrifstofa þess hafa ekki staðið sem skyldi að umfjöllun um málið, að undirbúningi og ákvörðunum. Mér finnst skipta miklu máli, vegna þess hvar ég bý, vegna þess að þar er starfsemi mikil á vegum þessa ráðuneytis, svo undarlegt sem það kann að virðast, að þetta ráðuneyti eins og önnur reyni að fullnægja almennum skilyrðum um mál af þessu tagi, ekki aðeins um ráðningu starfsmanna eða uppsögn þeirra heldur um allar umsóknir sem einstaklingar og fyrirtæki eiga undir ákvörðun þess og umfjöllun, að þeir mælikvarðar sem þeir verða bornir við séu þeim ljósir frá upphafi.
    Við höfum oft fjallað um þetta með þeim orðum að reglur skuli vera gagnsæjar. Það fullnægir ekki þeirri kröfu, virðulegi forseti, að mönnum sé fyrst frá því greint þegar niðurstaða er fengin hvaða mælikvarði er lagður á hæfni þeirra. En auk þessa vitum við og það hefur þegar verið nefnt í umræðunni, að á núlíðandi ári hefur umboðsmaður einnig fjallað um mál sem snertir sama ráðuneyti og í báðum þessum tilvikum er álit umboðsmannsins mjög hnekkjandi fyrir ráðuneytið.
    Auk þessa, virðulegi forseti, berast okkur þingmönnum oft og iðulega umkvartanir af því tagi að við hljótum að velta fyrir okkur hvort svo eigi við um fleiri mál, fleiri niðurstöður af hálfu ráðuneytis eða stofnana þess, sem varða okkur eða umbjóðendur okkar. Þau gögn sem ráðuneytið lagði fram í því máli sem hér er gert að umtalsefni eru ekki traustvekjandi og skýringar þess því síður. Ég vil þess vegna hvetja hæstv. ráðherra til þess að koma á faglegum vinnubrögðum í ráðuneytinu og þeim stofnunum þess sem um ræðir og að vinnubrögðin nái til þess að upplýsingar og mælikvarðar sem notaðir eru séu sjáanlegir og umsækjendur, hvort heldur eru einstaklingar eða fyrirtæki, viti um þessi gögn. Viti með hvaða mælikvörðum þeir verða mældir.
    Virðulegi forseti. Ég tel skipta höfuðmáli að hæstv. ráðherra taki þetta mál til athugunar. Hans ráðuneyti og hann sjálfur hefur í þinginu undanfarna mánuði staðið fyrir stórum málum sem við teljum skipta mjög miklu. Ég fyrir mitt leyti hef verið mjög sáttur við hans framgöngu í þeim málum, svo vera kann að hann geti greint okkur frá því að öðrum sé um að kenna í þessum. En hvað veldur skiptir ekki höfuðmáli heldur hitt að úr verði mældir.