Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 13:58:07 (1569)

[13:58]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Mér fannst síðasta ræða vera sorgleg vegna þeirrar forherðingar, þeirrar siðblindu sem þar kemur fram. Hún undirstrikar það sem ég sagði áðan að það vantar tæki til þess að hrinda í framkvæmd álitsgerðum umboðsmanns.
    Ég ætla ekki í andsvari að fara að ræða embættsveitingar eða embættisfærslu ráðherra. Ég vil bara láta það koma fram að það kemur æ betur í ljós hve fáránlegt fyrirkomulagið á Keflavíkurflugvelli er, t.d. að láta Tollgæsluna þar heyra undir utanrrh. Það er atriði sem þarf að breyta.
    Það var hlálegt að heyra hæstv. utanrrh. vera að reyna að lyfta sér og sanna mannþekkingu sína á hinum ágæta manni Kjartani Jóhannssyni, fyrrv. alþm. og ráðherra. Það var ekki sá gállinn á hæstv. ráðherra sjálfum þegar hann var að taka formennskuna af Kjartani Jóhannssyni í Alþfl., að hann hefði flutt svona ræðu þá. Kjartan Jóhannsson stendur alveg undir sínum verðleikum sjálfur og þeir eru miklir og óumdeildir. Utanrrh. á þar engan hlut að máli.