Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 14:00:04 (1570)

[13:59]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. sagði: Það vantar tæki til að fullnusta framkvæmd ábendinga umboðsmanns. Hvað á hv. þm. við? Umboðsmaður Alþingis sinnir mikilvægu og þörfu starfi. Hans hlutverk er að koma með fram rökstuddar ábendingar. Eins og fram hefur komið eru þær ekki úrskurðir og ekki dómsniðurstöður. Nú er það svo um okkur öll, bæði þau sem stöndum í daglegum verkefnum við stjórnsýslu og eins umboðsmanninn að mönnum getur skotist þó skýrir séu.
    Ég færði fram rökstudd svör við aðfinnslunum, féllst á sumt, hef þegar gert ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að það endurtaki sig en svaraði öðru með fullum rökum. Það er gangur málsins. Það eina sem mér þykir miður að því er varðar opna umræðu hér á hinu háa Alþingi er það að hafa verið knúinn til að birta mat yfirmanns tollgæslunnar á persónulegri reynslu af störfum þriggja einstaklinga. Það hefði ég kosið að ég hefði getað komist hjá. En eins og á málinu hefur verið haldið var það því miður óhjákvæmilegt.