Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 14:03:44 (1573)

[14:03]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er heldur að aukast finnst mér umræðan um skýrslu umboðsmanns Alþingis sem er orðin árviss viðburður og er það að mínu mati vel að menn skuli vera farnir að gefa þessari skýrslu meiri gaum en mér fannst vera fyrstu árin sem ég var vitni að þessum umræðum um þessa skýrslu. Það er líka ljóst að árangur nokkur er að verða smám saman af starfi umboðsmanns og mér þykir það vera ánægjuefni að loksins eftir margra ára ábendingu frá umboðsmanni hafa verið sett stjórnsýslulög sem voru strax nauðsynleg vegna starfa og hlutverks umboðsmanns Alþingis. Það má því segja að fram til þess tíma að sérstök stjórnsýslulög voru sett hafi umboðsmaður Alþingis átt að mörgu leyti ákaflega óhægt um vik að sinna sínu hlutverki enda var það í upphafi þegar frv. til laga um umboðsmann Alþingis var lagt fram, þá var jafnhliða lagt fram frv. til stjórnsýslulaga. Þó hefur ekki allt komið enn af því sem hefði átt að vera sett sem lög strax í upphafi. Ég vek athygli á því að enn vantar hjá okkur löggjöf um upplýsingaskyldu stjórnvalda og er alveg óvíst hvort úr því verði bætt á þessum vetri en mig minnir að það sé á málaskrá ríkisstjórnarinnar að flytja frv. um það á þessum vetri.
    Hins vegar er líka því miður hægt að nefna dæmi um ábendingar sem ekki hefur verið farið eftir þrátt fyrir það að umboðsmaður Alþingis hafi ítrekað borið þær fram í skýrslum sínum ár eftir ár. Þar vil ég fyrst nefna athugasemdir umboðsmanns í garð félmrn. Það kemur fram í skýrslunni fyrir þetta ár á bls. 189 að umboðsmaður hefur úrskurðað á síðasta ári mál er laut að álagningu innheimtu gatnagerðargjalda og segir þar í yfirlitinu á bls. 189, með leyfi forseta:
    ,,Þá væri sá ágalli á stjórnsýsluframkvæmd að vegna afstöðu félmrn. ættu gjaldendur þess engan kost að skjóta álagningu gatnagerðargjalds til æðra stjórnvalds. Hann taldi að brýnt væri að endurskoða lög nr. 51/1974 um gatnagerðargjöld og vakti athygli Alþingis og félmrh. á því skv. 11. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis.``
    Þetta er býsna alvarleg athugasemd og alvarlegri en þessi orð gefa til kynna og vil ég því til stuðnings vitna í skýrslu hans á síðasta ári en það segir í henni á bls. 10 um þetta mál, með leyfi forseta:
    ,,Að lokum er hér að nefna sem þriðja dæmið þá ákvörðun félmrn. að sinna ekki tilmælum umboðsmanns um að úrskurða um lögmæti tiltekinna ákvarðana sveitarstjórna sem til ráðuneytisins hafði verið skotið. Nánari grein fyrir þessu máli er gerð á bls. 117--119 í skýrslu fyrir árið 1989 og á bls. 7 í sömu ársskýrslu fyrir nauðsyn þess að greitt sé úr þeim vanda sem þessi afstaða félmrn. veldur`` og vísa ég til þeirrar skýrslu fyrir árið 1989 sem vitnað er til.
    Þarna hefur umboðsmaður Alþingis verið að vekja athygli á býsna alvarlegu máli í fjögur ár án þess að nokkur árangur hafi orðið af enn sem komið er. Því alvarlegra er þetta mál að það liggur fyrir að þróunin á næstu árum mun væntanlega verða sú að æ meira af stjórnsýslunni verður fært frá ríkinu til sveitarfélaganna. Þegar ráðuneytið sjálft túlkar sveitarstjórnarlög þannig að það sviptir borgarana í sveitarfélaginu rétti til að áfrýja ákvörðun sveitarstjórnarinnar til félmrn. og jafnhliða sviptir sömu borgara rétti til að áfrýja þeim úrskurði til umboðsmanns Alþingis vegna þess að þetta tvennt hangir saman. Umboðsmaður Alþingis tekur einungis til meðferðar þau mál sem unnt er að áfrýja frá sveitarstjórn til félmrn. Ef félmrn. túlkar sveitarstjórnarlög svo þröngt að það eigi ekki að úrskurða um sveitarstjórnarmál nema á mjög afmörkuðu sviði þá er ráðuneytið um leið bæði búið að svipta íbúa sveitarfélagsins rétti til að áfrýja þeirri ákvörðun til ráðuneytisins og líka til umboðsmanns Alþingis, þannig að íbúarnir eiga engan kost annan en að höfða dómsmál. Að þessu hefur verið fundið árum saman og ég gerði þetta sérstaklega að umræðuefni á síðasta ári við umræðu um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1991 án þess að nokkur árangur hafi orðið í þessu, hvorki af hálfu félmrh. né ríkisstjórnarinnar að hún hafi látið þetta mál til sín taka. Hefði þó verið full ástæða til í ljósi þeirrar áherslu sem ríkisstjórnin leggur á að breyta skipan landsins hvað varðar sveitarfélög og auka veg þeirra og verkefni því ef menn ætla sér að láta sveitarstjórnarstigið vera meira ráðandi og hafa meiri áhrif á umhverfi manna þá hljóta menn að þurfa að taka upp og bæta úr það sem á vantar í því að íbúarnir hafi einhvern rétt til að verja sig gagnvart ákvörðunum þessa sama stjórnsýsluvalds. Það er óviðunandi að búa við ástandið eins og það er, hvað þá ef það verður eins og villtustu tillögur gera ráð fyrir á næstunni.
    Þetta vildi ég nefna, virðulegi forseti, og ítreka og ganga eftir því að þingheimur myndi eftir þessu máli og tæki á með mér í því að minna ráðherra á að hér þarf að gera bragarbót og ef ekki fæst þá jafnvel að Alþingi sjálft láti málið til sín taka. En það er auðvitað hægt að flytja frv. til breytinga á lögunum þannig að þau séu ótvíræð hvað þetta varðar en það er alveg augljóst mál að það er til lítils að vera að flytja það frv. nema einhver vissa sé fyrir því að stuðningur sé við það frá öllum flokkum.
    Annað mál sem mig langar líka til að nefna og ég tel að snerti stöðu borgaranna gagnvart stjórnvaldinu og sem umboðsmaður Alþingis hefur fundið að án þess að það hafi borið árangur sem skyldi. Það eru aðfinnslur sem finna má í skýrslunni fyrir þetta ár á bls. 123 hvað varðar dómsmrn. Þar er rakið nokkuð viðamikið mál um afturköllun vínveitingaleyfis og skemmtanaleyfis en þar segir í þessum málavöxtum sem umboðsmaður rekur á bls. 123, með leyfi forseta:
    ,,Loks tel ég að lagaákvæði um skemmtanaleyfi séu afar ófullkomin og er álit þetta því sent forseta Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðherra af því tilefni, sbr. 11. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, og 11. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis.``
    Svar ráðuneytisins er á eftirgreindan veg, með leyfi forseta:
    ,,Að því er varðar ábendingar yðar um meinbugi á lögum skal tekið fram að nefnd á vegum ráðuneytisins vinnur nú að endurskoðun laga um lögreglumenn. Ábendingum sem varða þau lög hefur ráðuneytið komið á framfæri við nefndina. Aðrar ábendingar er varða nauðsyn lagaákvæða um skemmtanastarfsemi munu einnig verða teknar til athugunar við hentugleika.`` --- Við hentugleika.
    Hér er verið að finna að því að lög eru þannig úr garði gerð að framkvæmd þeirra er með mismunandi hætti um landið og virðist ráðast af mati sýslumanns á hverjum stað hvernig hann framkvæmdir þau lög. Þar er fyrst og fremst atriði sem ég vil vekja athygli á og það er innheimta á endurgreiddum lögreglukostnaði. Það eru heilu umdæmin sem innheimta ekki neitt í þennan kostnað á skemmtistöðunum, má þar nefna stór og dýr umdæmi eins og Akureyri og Reykjavík, þar sem augljóslega er haldið úti allnokkru lögregluliði með tilheyrandi kostnaði úr ríkissjóði til að halda uppi lögum og reglum í miðbænum hér svo nefnd séu dæmi án þess að þeir sem fyrir starfseminni standa greiði til þess nokkuð, þrátt fyrir skýlaust ákvæði í lögum og reglugerð. Hins vegar má á öðrum stöðum, t.d. Ísafirði og víðar, nefna dæmi um að sem sýslumenn virðast túlka þessa reglugerð og lög eins og a.m.k. ég skil þau og innheimta allnokkurt fé af skemmtistöðum til þess að halda uppi löggæslu. Aðalatriðið í þessu og aðfinnslum umboðsmanns Alþingis er að lögin eru ekki framkvæmd með sama hætti um land allt.
    Það hefur komið fram í svari hæstv. dómsmrh. að þetta muni verða tekið til athugunar við hentugleika. Það eru ekki fullnægjandi svör að mínu viti og ráðherra á ekki að svara umboðsmanni Alþingis með þessum hætti.
    Ég tek eftir því að í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er ekki gert ráð fyrir því að breyting verði á þessum lögum þannig að ef maður dregur ályktanir út frá því þá er ljóst að hæstv. dómsmrh. hugsar sér að framfylgja þessum lögum með sama hætti og verið hefur. Þannig að framkvæmdin verður mismunandi eftir lögregluumdæmum. En það hlýtur að vera grundvallaratriði að sömu lög gildi alls staðar á landinu. Það er óviðunandi að mál séu þannig frágengin af hálfu ráðuneytisins og Alþingis að svo sé árum saman að menn búi í raun við mismunandi löggjöf á tilteknu sviði.
    Þessi tvö atriði vildi ég minna á til áréttingar því að ég tel að stjórnvöld og Alþingi, það skal ekki undanskilja Alþing í þessum efnum því hvort tveggja eru löggjafaratriði, hafi ekki brugðist við ábendingum umboðsmanns Alþingis eins og skyldi. Í báðum þessum atriðum verða þessir aðilar að gera betur og vonandi að þeir geri það áður en næsta skýrsla verður rædd hér á Alþingi.
    Almennt er ástæða til að hafa nokkrar áhyggjur af stöðu borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Ég hef nefnt þessi tvö atriði en það má auðvitað nefna fleiri. Mér hefur orðið það mikið umhugsunarefni burt séð frá því máli sem um er að ræða hvort það geti verið eðlilegt í lýðræðisríki að stjórnvöld beiti sér í tilteknu máli með afli peninga, skattpeninga, til þess að hafa áhrif á þær skoðanir sem fólk myndar sér um þetta tiltekna mál. ( ÓÞÞ: Beri fé á menn?) Það er nánast verið að bera fé á menn, sérstaklega er mér það umhugsunarefni í ljósi þess að þeir sem kunna að hafa aðra skoðun en stjórnvöld vilja eiga þess engan kost að koma sínum skoðunum á framfæri með jafngildum hætti. Þeir eiga ekki sama aðgang að fjölmiðlum eins og stjórnvöld og þeir hafa ekki peninga eins og stjórnvöld hafa. Ég er auðvitað að tala þarna um sameiningu sveitarfélaga, burt séð frá því máli sem slíku, en er það eðlilegt að fylgjendur málsins hafi milljónatugi úr að spila en þeir sem eru ekki stuðningsmenn málsins eða einstakra tillagna fá ekki fimmeyring? Er það eðlilegt í lýðræðisríki? Mér finnst það óeðlilegt. Mér finnst það vera grundvöllur að lýðræðisríki að ólík sjónarmið hafi sömu möguleika.
    Þar sem þetta hefur orðið mér mikið áhyggjuefni og kannski ekki síður hitt að mér finnst að engir aðrir hafi áhyggjur af þessu og telji þetta jafnvel sjálfsagt mál, það finnst mér kannski vera mesta áhyggjuefnið ef svo er komið í íslensku þjóðfélagi og Alþingi Íslendinga að mönnum finnst þetta vera bara eðlilegt.