Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 14:32:43 (1575)

[14:32]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef þegar svarað efnislega þeim aðfinnslum sem fram komu í skýrslu umboðsmanns Alþingis og þeim sem hér hafa verið gerð að umtalsefni varðandi ráðningu í starf tollvarðar árið 1991 og hef engu við það að bæta, nema að líking hv. þm. Ólafs Þórðarsonar á bílstjóraprófinu var óheppileg. Það má kannski líkja þessu við það að umsækjendur allir höfðu hið almenna próf, þ.e. almennt bílpróf, en enginn hafði lokið meiraprófinu, sem var hin sértæka krafa. Og lögin kveða síðan á um það að þegar svo stendur á má beita frávikum ef enginn fullnægir ýtrustu skilyrðum. Þetta hef ég skýrt og rökstutt og hirði ekki um að svara því frekar.
    En mér var gefið alveg sérstakt tilefni til þess að svara hv. þm. Árna M. Mathiesen fáeinum orðum vegna þess að hann notaði þessa umræðu til að veitast að mér persónulega fyrir spillingu í embættaveitingum og að Alþfl. sérstaklega. Þessar umdeildu embættaveitingar sem svo eru taldar voru fjórar. Ég hef þegar svarað að því er varðar Kjartan Jóhannsson. Næsta mál á dagskrá varðar ráðningu í embætti seðlabankastjóra. Því háttaði svo til að það starf var auglýst, um það sóttu margir hæfir menn. Það er bankaráð Seðlabankans sem ræður í starfið og það réði til starfið afdankaðan pólitíkus, fyrrv. stjórnmálamann, sem hafði verið m.a. ráðherra viðskiptamála og bankamála um langan tíma. Þetta þótti alveg sérstakt tilefni til árása á Jón Sigurðsson ( ÁMM: Hvenær var það . . .  ?) og það var gefið fyllilega í skyn að hér væri eingöngu spurt um flokksskírteini en ekki hæfni.
    Nú gerðist það fyrir nokkru síðan að þegar öflugasti banki Norðurlanda þurfti að leita sér að nýjum framkvæmdastjóra þá var það auglýst og það sóttu um rúmlega 50 hæfustu bankamenn á Norðurlöndum en við nánari umhugsun og umfjöllun var ákveðið að hafna þeim öllum og leita til hins afdankaða pólitíkuss, sem setið hefur undir linnulausum árásum stjórnarandstæðinga fyrir að hafa þegið embætti út á flokksskírteini. Þetta segir allt sem segja þarf um óhróður stjórnarandstæðinga. Ég átti hins vegar ekki von á því að hv. þm. Árni M. Mathiesen vildi skipa sér í þá sveit. Ég tek ekkert mark og geri engar kröfur til sanngirni eða réttsýni hv. þm. Páls Péturssonar eða Ólafs Ragnars Grímssonar, en ég hefði vænst þess að hv. þm. Árni M. Mathiesen vildi ekki skipa sér í þá sveit.
    Þriðja embættaveitingin sem notuð hefur verið til árása á Alþfl. og talin dæmi um pólitíska spillingu var skipan Eiðs Guðnasonar, fyrrv. ráðherra, í sendiherrastarf í Ósló. Ég bæti því við að ég hef sem utanrrh. á tæplega sex ára ferli skipað þrjá stjórnmálamenn til sendiherrastarfa. Um Eið Guðnason er það að segja að fyrir utan langan þingferil hér á löggjafarsamkomunni hafði hann sérstaklega starfað á vegum síns flokks mikið í norrænu samstarfi. Stjórnað þar mörgum veigamiklum nefndum og sem umhvrh. starfað mjög á þeim vettvangi. Vegna starfa sinna og reynslu sem stjórnmálamaður á hann greiðan og milliliðalausan aðgang að öllum helstu stjórnmálamönnum Norðurlanda sem hann þekkir persónulega.
    Þegar kom til álita að skipa í þetta starf var annars vegar að meta ýmsa hæfa embættismenn sem ekki höfðu þessa reynslu og ekki höfðu þessi sambönd og mín niðurstaða varð sú að það væri vel til fundið, sérstaklega á þessum tíma að því er varðar Noreg, að velja til starfans stjórnmálamann. Og ég stend við þá ákvörðun, tel að hún hafi verið vel ráðin og ekki gagnrýniverð.
    Fjórða embættaveitingin sem menn hafa haft milli tannanna er val á fyrrv. þingmanni og fyrrv. formanni fjárln. til að gegna starfi forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins. Um það ætla ég að segja það eitt að það starf var auglýst og þar var leitað eftir forstjóra. Það var ekki verið að ráða tryggingastærðfræðing. Og nú spyr ég hv. þm.: Finnst þeim í ljósi kynna af þeim manni og í ljósi þeirrar staðreyndar að hann gegndi um hríð yfirmannsstöðu af hálfu löggjafarvaldsins að því er varðar fjármál ríkisins að hann hljóti að teljast dæmi um augljósa pólitíska spillingu eða vanhæfi til að stjórna stofnun eins og Tryggingastofnun? Tryggingastofnun hefur verið mjög gagnrýnd fyrir slaka stjórn í fjármálum. Sem formaður fjárln. kom hv. þm. Karl Steinar Guðnason á framfæri mörgum gagnrýniatriðum í því efni. Ég segi fyrir mig: Það er á engan hallað, aðra umsækjendur, sem sumir hverjir voru mjög hæfir, þótt ég segi að reynsla stjórnmálamanns á löggjafarsamkomu Íslendinga sem sérhæfði sig einkum og sérílagi í löggjöf á félagsmálasviðinu, sem hefur þá reynslu að hafa verið yfirmaður fjárln. Alþigis, hún er fullboðleg til þess að gegna slíku starfi hafi maðurinn sýnt í verki að hann hafi ábyrgðartilfinningu í fjármálum. Sem mér skilst að samstarfsmenn hans í fjárln. hafi reyndar lokið lofsorði á.
    Virðulegi forseti. Þessi ræða er að vísu ekki um skýrslu umboðsmanns Alþingis. Það er ekkert um þetta að finna í skýrslu umboðsmanns Alþingis. En hv. þm. Árni M. Mathiesen notaði ræðutíma sinn til þess að veitast að mér og veitast að mínum flokki og bera okkur sérstökum sökum og ég þykist fullviss að ég hafi hann ekki fyrir rangri sök að þetta hafi verið honum ofarlega í huga. En nú spyr ég hv. þm., sem kaus að skipa sér með þessum hætti í röð ófyrirleitnustu gagnrýnenda Alþfl., með leyfi að spyrja, hefur hv. þm. gagnrýni fram að færa á þá staðreynd að hans flokkur hefur valið stjórnmálamenn til mikilla ábyrgðarstarfa í bankakerfinu? Ætlar hann að gagnrýna þá ráðstöfun þegar fyrrv. forsrh., fyrrv. borgarstjóri í Reykjavík, maður með mikla reynslu á sviði stjórnmála og stjórnunarstarfa, Geir Hallgrímsson var valinn til þessara starfa sem seðlabankastjóri? Eða fyrrv. borgarstjóri, fyrrv. þingmaður og ráðherra, Birgir Ísleifur Gunnarsson, var valinn til þess að verða seðlabankastjóri? Eða Ögurvíkingurinn sjálfur, fyrrum þingmaður Austfirðinga, fyrrum ,,kommissar`` í Framkvæmdastofnun, var valinn til þess um leið og hann

steig upp úr stól þingmanns að gegna bankastjóra við aðalviðskiptabanka þjóðarinnar? Ætlar hv. þm. að gagnrýna það þegar hans flokkur hefur valið til starfa fyrrv. alþingismenn og sett þá í störf sýslumanna. Hv. þm. Friðjón Þórðarson, núv. sýslumaður. Á ég að nefna fleiri? Einar Ingimundarson. Vill hv. þm. að ég nefni fleiri til sögunnar? Eða telur hv. þm. það sérstaklega gagnrýnivert þegar flokkur hans hefur valið starfandi þingmenn til þess að gegna mikilsverðum störfum t.d. í bankaráðum þjóðbanka eða í stjórnir fjármálastofnana og stjórn Byggðastofnunar eða þegar skipaðir eru menn úr innsta hring í fjármálaráði flokks hans til mikilla trúnaðarstarfa innan t.d. stofnana á vegum fjmrn.? Það er óhjákvæmilegt, hv. þm., þegar veist er að samstarfsflokknum með þessum hætti að það sé svarað og í annan stað að hv. þm. sé sjálfum sér samkvæmur í gagnrýni sinni. Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.