Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 14:46:44 (1581)

[14:46]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. misskildi hrapallega það sem var kjarninn í mínu máli en hann er þessi: Ég er þeirrar skoðunar að það gefi ekkert tilefni til ásökunar um spillingu þótt fyrrv. stjórnmálamenn séu ráðnir til starfa ef þeir á annað borð fullnægja hæfniskröfum. Ég tek ekki undir með þeim sem hrópa ævinlega, þótt það sé venja stjórnarandstöðu ef stjórnmálamanni eru falin tiltekin störf, að það sé samkvæmt skilgreiningu spilling. Ég get skýrt frá því núna af því að það er ekki lengur bundið neinum trúnaði, að á sínum tíma bauð ég formanni Framsfl. og falaðist eftir honum sem sendiherra Íslands í New York. Það var formaður Framsfl. sjálfur sem opinberlega skýrði frá því að hann hefði fengið það boð og hann hefði hafnað því þannig að ég er ekki að rjúfa neinn trúnað þótt ég lýsi þessu yfir. Hvað gekk mér til? Mér gekk það ekki til að fá þennan stjórnmálamann frá þátttöku í pólitík. Ég taldi að fenginni reynslu að maður sem hefur gegnt mörgum ráðherraembættum og forsætis- og utanríkisráðherraembætti fyrir hönd Íslands og er því prýðilega til þess fallinn, nokkuð þekktur á erlendum vettvangi, að vera fulltrúi Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Og ég tek það fram að það er ekki tilefni til neinna ásakana um spillingu.