Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 14:52:05 (1585)

[14:52]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Það er mjög ánægjulegt að heyra að gagnrýni mín hefur náð eyrum hæstv. utanrrh. og ég fagna því að hann hefur að hluta til tekið undir bæði mína gagnrýni og gagnrýni umboðsmanns Alþingis hvað varðar formgalla og þær tafir sem urðu á því að utanrrn. svaraði spurningum umboðsmannsins. Og í þessum efnum hefur hann lofað bæði bót og betrun.
    Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að þeir umsækjendur sem komu til gerina við stöðuveitingar í tollinum á Keflavíkurflugvelli voru þrír en það voru ekki svonefndir A, B og C heldur voru það A, B og I. Og umsækjandi C var talinn einn af þeim sem var síst hæfur og hvergi nefndur í umsögnum lögreglustjórans.
    Hæstv. utanrrh. fór nokkrum orðum um þessa umsækjendur, þar á meðal A sem hann taldi vera algerlega ómögulegan. Ég spyr því: Ef A var svona ómögulegur hvers vegna var hann þá í mörg ár ráðinn til sumarafleysinga í tollinum á Keflvíkurflugvelli? Og hvers vegna mælir þá lögreglustjórinn á Keflvíkurflugvelli með að hann verði lausráðinn í stöðu sem þá var laus vegna þess að annar aðili var í fríi? Og ef aðili B var svona ómögulegur hvers vegna mælir þá lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli með honum í umrædda stöðu tollstjóra? Og C, ef hann er svona hæfur hvers vegna mælti þá ekki lögreglustjórinn með honum, annaðhvort til fastráðningar eða til lausráðningar? Hann tók ekki bara B fram yfir C, heldur tók hann bæði A og I fram yfir C því að hann lagði til að B yrði fastráðinn og A og I yrðu lausráðnir. Röksemdafærsla ráðherrans í þessu efni heldur því ekki vatni, enda segir á bls. 157 í skýrslu umboðsmanns Alþingis, með leyfi forseta:
    ,,Af hálfu utanrrn. hafa ekki verið færð fram nein gögn eða rök sem geta réttlætt að vikið væri frá almennum menntunarskilyrðum tollvarða skv. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 85/1983, en þar ber að hafa í huga að tveir umsækjendanna uppfylltu þessi hæfisskilyrði.``
    Meira þarf ekki að segja um þetta mál. Ráðherrann sakar mig um að veitast að sér persónulega og að Alþfl. Suður í Hafnarfirði gæti ég ekki fengið meira hrós en þetta en því miður tel ég mig ekki eiga það alveg skilið því að gagnrýni mín á hæstv. ráðherra var sett fram í vinsemd en alls ekki af einhverjum haturshug eins og aðstoðarmaður hans gerir gagnrýnendum hans upp hugarfar í grein sinni í Morgunblaðinu 20. okt. sl. Ef ég hef veist svona illilega að hæstv. ráðherra og flokki hans, má þá ekki segja það sama um þingmenn Alþfl. sem gagnrýndu stöðuveitingar ráðherra flokksins sl. sumar á flokksráðsfundi fyrir tæpum hálfu mánuði? ( Utanrrh.: Þeir gerðu það ekki.) Samkvæmt fréttum gerðu þeir það. ( Utanrrh.: Nei.) Voru þeir ekki að veitast að formanninum og flokknum?
    Hæstv. utanrrh. nefndi til sögunnar Kjartan Jóhannsson, sveitunga minn og nágranna. Skipun Kjartans sem sendiherra hef ég aldrei gagnrýnt og ég held að það sé hvergi hægt að finna því stað að ég hafi nokkurn tíma hallmælt Kjartani Jóhannssyni. ( Utanrrh.: Hefði það ekki þótt hrós í Hafnarfirði?) Ráðherrann fór mjög ítarlega í gegnum þær þrjár embættaveitingar sem Alþfl. stóð fyrir og urðu sérstaklega til umræðu á sl. sumri. Um þessar veitingar fjallaði ég m.a. í grein sem ég skrifaði í Hamar, blað okkar sjálfstæðismanna í Hafnarfirði sl. sumar og útdráttur úr þessari grein var birtur í Staksteinum Morgunblaðsins stuttu síðar. Ég vitna í greinina eftir minni en þar segi ég m.a. að ég gagnrýni engar þessar embættaveitingar sérstaklega og það mætti færa rök fyrir því að hver þessara manna væri einn og sér hæfur til þess að gegna því embætti sem hann var skipaður til. En það sem ég gagnrýni er sú keðjuverkun sem þarna var sett af stað, sú pólitíska leikflétta sem þarna var í gangi til þess að leysa innanflokksvandamál í Alþfl. og létta þrýstingi af sjálfum formanni flokksins. Það má segja að það hafi tekist snilldarlega vel. En það er alveg greinilegt á umræðunni sem hefur verið í þjóðfélaginu og verið hefur innan Alþfl. og sennilegast kemur það fram í skoðanakönnunum að fleirum en mér finnst óeðlilegt að 1 / 3 af þingflokki Alþfl. sé fluttur á einu bretti inn í Stjórnarráðið í æðstu og best launuðu embættin.
    Hvað spurningar hæstv. ráðherra í minn garð varðandi embættaveitingar ráðherra Sjálfstfl. varðar

er það að segja að þær embættaveitingar sem hann tiltók hef ég ekki gagnrýnt. Ég tel alls ekki að fyrrv. alþm. séu óhæfir til þess að gegna embættum á vegum ríkisins, síður en svo. Í þeirri grein sem ég vitnaði til áðan tek ég það einmitt fram að ég telji að pólitísk reynsla sé mjög gott veganesti og í mörgum tilfellum afar gott veganesti til þess að sinna opinberum embættum. Þar sem ráðherrann tilnefndi bankaráð sem sjálfstæðismenn hafa verið skipaðir í og stjórnir annarra fjármálastofnana er það að segja að það hefur áreiðanlega á sínum tíma verið gagnrýnivert þegar stjórnmálamenn sátu í bankaráðum sem þá höfðu með það að gera að ákvarða lánveitingar. Ég tel að í dag þegar búið er að breyta bankalögum þannig að bankaráðin hafa ekki með forræði lánveitinga að gera, þá sé það ekki óeðlilegt þótt þingmenn sitji í þingkjörnum bankaráðum. Ráðherrann hefur hins vegar engu svarað gagnrýni minni hvað varðar framferði hæstv. ráðherra á varnarsvæðinu og á svæði flugstöðvarinnar, hjá Flugmálastjórn, hjá Ratsjárstofnun og Íslenskum aðalverktökum sem öll falla undir hans starfssvið. Þetta verður væntanlega að ræða einhvern tímann seinna, hugsanlega einhvers staðar annars staðar.
    En þessi gagnrýni sem ég hef haft hér uppi á ráðherrann, sem ég tel vera efnislega gagnrýni, er sett fram í fullri vinsemd og ég frábið mér það að verða tekinn inn í flokk hatursmanna eins og aðstoðarmaður hans kallar það eða óvini hans því það er ég ekki. Ég vil biðja hann, ekki síst sjálfs sín vegna, að taka mark á þeirri gagnrýni sem ég hef hér lagt fram í dag og breyta út af því sem hér hefur verið gagnrýnt í dag og því sem á svipaðn hátt hefur verið gagnrýnt annars staðar, í fullri vinsemd, hæstv. ráðherra.