Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 15:53:16 (1599)

[15:53]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. 2. þm. Suðurl., Jóni Helgasyni, fyrir að hafa tekið þetta mál upp hér. Það var nauðsynlegt að þetta mál yrði rætt fyrir opnum tjöldum og opinberlega. Það hafa ýmsar sögur verið á kreiki og margt ónákvæmt verið sagt í þessum málum upp á síðkastið og þess vegna er ég mjög þakklátur fyrir það tækifæri sem mér gefst á þessum fundi til þess að skýra aðdragandann að GATT-tilboðinu eins og hann horfir við mér og hvernig ég tel að vinnubrögð hafi verið í sambandi við það.
    Ég vil fyrst skýra frá því að ekki hefur verið vitnað mjög til mín í sambandi við fréttaflutning undanfarið í sambandi við GATT-viðræður. Það er rétt sem fram hefur komið að ég og hæstv. utanrrh. áttum einkasamtal. Það kom síðan í ljós daginn eftir að það voru ýmis atriði sem við hefðum þurft að ræða betur þannig að við fórum yfir öll málin á nýjan leik, sem er ekki undarlegt. En það var einkasamtal og varðar hvorki þennan fund né fjölmiðla.
    Það sem á hinn bóginn liggur fyrir eftir þær viðræður sem við höfum átt og einnig með hæstv. forsrh. er það sem hér kemur fram: Afgreiðsla ríkisstjórnarinnar var með þeim hætti að okkur þrem var falið að ganga frá GATT-tilboði ef við næðum um það samkomulagi og það eru þau gögn sem fyrir liggja, hvorki meira né minna.
    Ég kann ekki að láta í ljósi neina skoðun á því hvort hv. þm. þykir það ótrúleg atburðaráðs sem hefur leitt til þess að ríkisstjórnin náði samkomulagi um GATT-tilboðið, átta mig ekki alveg á því á hvaða Kagaðarhóli hann var þegar hann virti atburðarásina fyrir sér. En ég held að hitt sé alveg ljóst að eins og landbrn. hefur haldið á þessum málum frá öndverðu hefur ekki, svo mér sé kunnugt, verið gerð nein tilraun til þess að leyna upplýsingum, hvorki fyrir hagsmunaaðilum --- ég tek það svo að þar sé átt við bændastéttina --- né stjórnarandstöðu. Hitt vita alþingismenn að ef ákveðin atriði eru ekki rædd til þrautar í ríkisstjórn þá er auðvitað ekki við því að búast að stjórnarandstaðan sé tekin í sérstakan trúnað um þau atriði á meðan verið er að vinna að lausn eða niðurstöðu. Það er hvorki gert í þessari ríkisstjórn né öðrum, þó af og til sleppi kannski orð í fjölmiðil. En með formlegum hætti getur það ekki orðið. Ég tel því að það hafi að fullu verið staðið við það samráð sem í upphafi var boðið fram í þessum efnum.
    Ég vil raunar einnig taka það fram að landbrn. og fulltrúar þess eða starfsmenn sem hafa unnið að GATT-tilboðum, hafa þegið mikilsverða aðstoð frá framleiðsluráði og bændasamtökum. Og í sambandi við þá fundi sem haldnir hafa verið um GATT-málefni þá hefur það, hygg ég, komið fyrir í hvert einasta skipti að menn hafa borið saman bækur sínar og reynt að meta það í sameiningu hver staðan sé, bæði eftir opinberum leiðum og eins með þeim kunnugleika og nána samstarfi sem íslensku bændasamtökin hafa við starfsbræður sína í öðrum löndum. Það má kannski færa einhver rök fyrir því að það hafi ekki verið rétt að láta fylgja þessu bollaleggingar um hversu líklegt sé að Íslendingar nái fram tilteknum kröfum í lokahrinu samninganna. Hitt held ég að hljóti þó að vera öllum ljóst að þar stendur ekki eitthvað sem er alveg óvænt heldur það sem er almennt mat og áreiðanlega öllum fyrir bestu að vera ekki í neinum feluleik um efni málsins á því stigi sem það er nú. Ég hygg að engar slíkar upplýsingar hafi komið fram sem veiki samningsstöðu okkar. Að vísu hefur komið ein og ein uppákoma eins og þegar háskólinn birti skýrslu í sjónvarpinu í gærkvöldi, sem mér skilst að hafi verið samin fyrir mann úti í bæ, um það að landbrn. hefði unnið illa að GATT-tilboðinu. Þeir menn sem unnu að þessari gagnrýni fyrir hönd háskólans höfðu þó ekki svo mikið við að hafa samband við landbrn., leita skýringa eða upplýsinga hjá þeim mönnum sem unnu að GATT-tilboðinu. Var það þó lagt fram í aprílmánuði 1992 og hefur legið opið fyrir öllum öðrum þjóðum. Við höfum átt í viðræðum við Bandaríkjamenn um þessa útreikninga og allar þessar ávirðingar sem eru á starfinu og þeir hafa rekið augun í uppi í háskóla í hagfræðistofnuninni, hafa ekki komið annars staðar frá. Ég hafði raunar boðið háskólanum að ég vildi eiga við hann gott samstarf um þessi efni en við getum svo sem skokkað sína götuna hvor í þessu eins og ýmsu öðru ef okkur sýnist svo. Það er mikið skokkað á Seltjarnarnesinu og háskólinn er þar einhvers staðar nálægt.
    En ég vil segja það hér að ég átti síðast í dag samband við háskólarektor og ítrekaði enn vilja minn til þess að vinna með hagfræðistofnun. Að landbrn. bæri gæfu til þess að hagfræðingar og sérfræðingar háskólans vildu vinna með stjórnvöldum, ég tala nú ekki um þegar um tilboð er að ræða sem við leggjum fram fyrir aðrar þjóðir, en séu ekki uppi með einhverjar órökstuddar eða illa rökstuddar fullyrðingar sem eru ekki til annars fallnar en e.t.v. að skaða málstað okkar annars staðar, a.m.k. eins og fréttir berast eru þær ekki til þess fallnar að styðja kröfur okkar Íslendinga. (Gripið fram í.) Ég veit ekki um það fyrir hvern þeir vinna, mér hefur ekki verið sagt það. Ég veit ekki um það, háskólarektor var það ókunnugt.
    Eitt atriði hv. þm. var að listinn hefði verið lagður fram í ríkisstjórninni 3. sept., ekki kynntur fyrr. Eins og ég sagði voru gögnin lögð fram í apríl 1992 en nú í septembermánuði var tilboðið lagt fram, útfært eins og það hafði verið unnið í höfuðdráttum af starfsmönnum landbrn. en starfsmenn fjmrn. komu einnig að þessu máli og raunar utanrrn., og málið sem drög var þá lagt fyrir fulltrúa Bandaríkjanna þá þegar í þeim mánuði. Ég leit svo á eftir fyrsta fund að tilboðið hefði verið samþykkt með fyrirvörum um tæknileg atriði en það var ekki skilið svo og kom raunar í ljós síðar að efnislegar umræður þurftu að fara fram um nokkur atriði. Ég get ekki fallist á að með þessu tilboði sé dregið úr þeim kröfum sem við höfum áður sett fram, né heldur að það sé einhver undansláttartónn í ríkisstjórninni í þessu máli. Ég held að þegar við ræðum um þetta skulum við byrja að átta okkur á því hvort við séum reiðubúnir til að standa utan við GATT í fyrsta lagi og í öðru lagi hvort við eigum að líta þannig á að það sé heppilegt fyrir okkur Íslendinga eða landbúnaðinn í heild sinni, þá einstaklinga sem hann stunda, bændur, að við til allrar frambúðar reynum að halda landinu lokuðu.
    Ég hef átt fundi með bændum um allt land um þessi efni og það er alveg ljóst að ekki síst í þeim sveitum sem fjærst eru Reykjavík, eins og í Norður-Þingeyjarsýslu, þar er samdómaálit þeirra bænda, sem

ég hef hitt og til máls hafa tekið um þau efni á þeim bændafundum sem ég hef sótt, að við Íslendingar eigum svo mikið í húfi í sambandi við GATT-samninga að það sé óhugsandi að við getum staðið þar fyrir utan. Þannig að málið getur ekki snúist um það, að ég hygg, hvorki frá stjórnarandstöðunni né frá meiri hlutanum hvort við eigum eitthvert val um það að vera aðilar að GATT eða ekki. Ef við ætlum að vera nútímaþjóð, ef við ætlum að bjóða íslenskum framleiðendum upp á þau viðskiptakjör sem framleiðendum annarra landa er boðið þá verðum við að taka þátt í þessu samstarfi og við verðum auðvitað að sætta okkur við það að í mótun þess samkomulags sem að síðustu verður niðurstaðan höfum við ekki jafnmikið að segja og hinar stærstu þjóðir. Þetta fylgir m.a. því að vera Íslendingur og samt þykir okkur það nú gott.
    Þá kemur hin spurningin: Erum við hér með einhvern undansláttartón í okkar tilboði? Áður en ég kem að því vil ég aðeins víkja að öðru. Ég hygg að það sé yfirleitt skoðun bænda --- að minnsta kosti er það yfirgnæfandi skoðun bænda sem til máls hafa tekið um þau efni á fundum Stéttarsambands bænda og annars staðar þar sem ég hef átt fundi með bændum --- að það getur ekki verið einhver vörn til lengdar fyrir landbúnaðinn að reyna með öllu að standa á móti hvers kyns innflutningi. Eins og okkur er öllum kunnugt hefur landbúnaðurinn og þær greinar sem við hann styðjast ég vil segja þróast eða starfað í falskri vernd fram að þessu. Þá er ég ekki aðeins að tala um bændur í þrengstu merkingu heldur er ég einnig að tala um sláturleyfishafa, kjötiðnaðinn og aðra sem að þessu koma. Þetta hefur valdið því að í ýmsum efnum höfum við vanið okkur á vinnuvenjur og annað sem ekki stenst samanburð við kostnað og afköst í nágrannalöndum svo ég taki sláturkostnaðinn sem dæmi sem er þrisvar til fjórum sinnum hærri hér en í nágrannalöndum. Þetta veldur því líka að hið opinbera, alþingismenn, við sem hér erum inni, höfum verið kærulaus með að leggja á landbúnaðinn ýmsar þær byrðar sem mönnum dettur auðvitað ekki í hug að leggja á þær vörur sem eru í samkeppni við erlenda aðila. Ég get tekið kjarnfóðurskattinn þar sem dæmi. Ég get tekið annað dæmi af ýmsum tollum sem eru jafnvel á innflutningi á rekstrarvörum í landbúnaði, jafnvel í þeim greinum sem við höfum nú gert tvíhliðasamning um að erlendar þjóðir megi flytja inn tollfrjálst. Það er því óhjákvæmilegt fyrir okkur að endurskoða þennan feril í heild sinni og gera okkur grein fyrir að við lifum nú á öld sem krefst frjálsari viðskiptahátta.
    Ég hafna þeirri skoðun sem sums staðar kemur fram að það sé einhver einn maður fremur en annar í þessum þingsölum sem getur kallað sig fulltrúa neytenda, einhver einn flokkur fremur en annar, sem sé einhver neytendaflokkur umfram það sem aðrir eru. Ég tel að ég sé fulltrúi neytenda í þessu landi þegar ég segi að það sé frumskylda okkar alþingismanna að um leið og við erum að auka viðskiptafrelsi og losa um höft verðum við að gera það með þeim hætti að það samrýmist ekki í lítilli bráð heldur í nálægri lengd og til frambúðar hagsmunum beggja, neytenda og framleiðenda, og um leið íslensku þjóðarinnar.
    Eitt af því sem var nú misskilningur hjá hv. þm. eða ekki misskilningur þá er rétt að í því bréfi sem sent var og fylgdi tilboði okkar Íslendinga er talað um það að við áskiljum okkur rétt í sambandi við þær viðmiðanir sem eru í krónutölu en ekki í prósentum, þá áskiljum við okkur rétt til þess að þær breytist samkvæmt viðmiðunargjaldmiðli, ég skal koma að því á eftir og þá erum við að tala um innanlandsstuðning. Það féll niður fyrir vangá að við þurfum auðvitað um leið að viðhalda rétti okkar til útflutningsbóta ef við munum seinna taka þær upp og hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að leiðréttingar þess efnis verði sendar í kjölfar GATT-tilboðsins.
    Það er nú svo að ef aðrar þjóðir verða að sætta sig við að viðmiðanir sem eru ákveðnari krónutölu eða pundum fylgi þeim gjaldmiðli þá getum við ekki vænst þess að við einir getum staðið á vísitölu heldur er eðlilegt að um okkur gildi sambærileg regla og um aðrar þjóðir að þessu leyti. Þannig að þar er ekki um neinn undansláttartón að ræða og þetta er raunar í samræmi við það hygg ég sem menn gerðu sér grein fyrir strax í upphafi. Í sambandi við magntakmarkanir er það að segja að eins og við gengum frá okkar tilboði í upphafi þá lögðum við áherslu á þá staðreynd að vegna þess að við höfðum gert ráðstafanir til þess að fella útflutningsbætur niður þá áskildum við okkur rétt til þess að taka magntakmarkanir, innflutningstakmarkanir, á þeim vörum sem útflutningsbætur hefðu verið á og skilgreindum það með þeim hætti.
    Nú vorum við þar einir á báti en ýmsar aðrar þjóðir settu fram kröfuna um magntakmarkanir á þær framleiðsluvörur í landbúnaði sem eru undir framleiðslustýringu. Í íslenska tilvikinu vill svo til að það eru nánast sömu vörurnar. Af þeim sökum er í tilboði okkar talað um að magntakmarkanir verði á þær vörur sem framleiðslustýring er á og erum við þá að tala um mjólkurvörur og dilkakjöt. Þetta er sá málatilbúnaður sem við teljum líklegastan til að ná árangri. Það er auðvitað rétt að þær þjóðir sem lengst vilja ganga í frelsi geta ekki á slíkt fallist og það er vitaskuld rétt að það má deila um það hvernig maður eigi að tala, hversu opið maður eigi að tala um samningamöguleika sína en hv. þm. kaus að taka þetta mál upp hér á Alþingi með þeim hætti sem hann gerði til þess að láta sjónarmiðin koma fram og með sama hætti varð það niðurstaðan þegar þetta tilboð var kynnt þingmönnum að láta þau sjónarmið koma fram sem hann las hér upp.
    Um 3%--5% lágmarksaðganginn vil ég nú segja fyrst það að menn hafa sýnt því mikinn áhuga hér hvernig eigi að úthluta þessum 3,5%. Menn geta verið með sínar vangaveltur um það. Ég held að það sé nú best að reyna að bíða og átta sig betur á því hvernig málin þróast áður en við förum að tala um það í einhverri alvöru. Ég held að þau mál hljóti að skýrast eftir því sem samningunum vindur fram. Það eru ýmsar getgátur uppi um það og ýmsar skoðanir uppi um hvernig það eigi að gerast og sumir hafa ógnarlega gaman af að tala um það. Það getur verið ágætt yfir kaffibolla. Í okkar dæmi höfum við kosið að

fylgja því að tollgjöld innan kvótanna verði 32% af grunngjaldi og fylgjum við þar Norðmönnum og Evrópubandalaginu.
    Að lokum spurði hv. þm. á hvers forræði innflutningsmál landbúnaðarins yrðu ef til GATT-samninga kæmi, hvort ljóst væri að landbrn. fengi ótvírætt forræði þeirra mála. Ég sé ekki efni til að svara því hér nú en minni á að niðurstöður í þeim efnum verða að liggja fyrir helst á næstu dögum vegna þeirra skuldbindinga sem við höfum gert.
    Ég hygg ég hafi komið að þeim atriðum sem hv. þm. vakti mál máls á.