Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 16:29:08 (1601)

[16:29]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hinn framúrstefnulegi farandverkamaður íslenskra stjórnmála, formaður Alþb., sat nýlega á blaðamannafundi við hliðina á hv. þm. Ragnari Arnalds og kynnti enn einu sinni hina nýju leið Alþb. Og formaðurinn sagði dálítið upplyftur að þetta væri af hálfu Alþb. ögrun gagnvart öðrum stjórnmálaflokkum, að nú skyldu þeir fara að eins og Alþb. að gera upp við fortíð sína. Hin nýja leið er útflutningsleið. Hvað felst í því? Í því felst, ef það felst eitthvað í því annað en umbúðirnar, að Alþb. viðurkennir nú loksins eftir langa mæðu að fríverslunarstefna smáþjóða sem vill byggja á útflutningi sé hin eina rétta. Alger mistök að hafa verið á móti EFTA, alger mistök að hafa verið á móti EES, umfram allt að stuðla að sem mestri fríverslun, tollfrjálsum viðskiptum. Það er lykillinn að útflutningsleiðinni. Með öðrum orðum, héðan í frá er fortíð mín í ösku. Þetta er framtíðarstefnan. Og þar var hv. þm. Ragnar Arnalds, ég sá það alla vega á myndum, og þótt Sveinn í Firði hafi sagt: Lygi er lygi þó hún sé ljósmynduð, þá trúi ég því að hann hafi verið þarna og tekið þátt í því að boða hina nýju leið.
    Einhvern veginn var það nú svo að þetta nýja forrit, einhverjir hafa kvartað undan að það hafi horfið forrit einhvers staðar annars staðar, það birtist ekki mikið í ræðu hv. þm. ( HG: Hefurðu lesið þetta?) Hv. þm. Ræðumaður hefur blaðað yfir efnisyfirlitið og litið frasana og kannast við góssið. Og í raun og

veru mætti kalla hina nýju leið nánast umskrift, þetta er svona hálfopinber útgáfa á EES-leiðinni, merkilegt nokk. Ég óska alþýðubandalagsmönnum til hamingju með skjalið og vona að þeir eigi notalega stund á landsfundinum, ekki verða þar kosningar, við að yfirlesa það og færa það svona í stílinn. ( RA: Ráðherra mætti lesa meira en fyrirsagnirnar.) Það er ekki mikið verk að lesa þessa slípuðu gamalkunnu frasa því það þarf ekki að rýna djúpt á milli línanna til að sjá hvað verið er að gera.
    Við erum hér að ræða GATT-málið og það er beint fyrirspurnum til hæstv. landbrh. Áður en ég vík nánar að því þá vildi ég mega setja það fram sisvona: Ef við spyrðum hvað landbúnaðarþáttur GATT-samninganna þýðir í raun og veru, þá hygg ég að rétt svar væri það að með þessum reglum er verið að örva til viðskipta með landbúnaðarvörur og matvæli í stórauknum mæli sem á að tryggja annars vegar neytendum lægra verð á lífsnauðsynjum og framleiðendum aðhald samkeppninnar sem mun líka leiða til kostnaðarlækkana og stóraukinnar vöruþróunar. Og þeir sem aðhyllast útflutningsleiðina fagna því að sjálfsögðu að þar með eru opnar leiðir á samræmdum samkeppnisskilyrðum, ekki í fyrsta áfanga en þegar fram í sækir, þannig að hágæðavörur íslensks landbúnaðar, hinar hormónafrelsuðu eða lausu hágæðavörur íslenskar gætu jafnvel fundið sér svona hreiður á erlendum mörkuðum, hugsanlega á háu verði, og gætu þess vegna vissulega skapað íslenskum landbúnaði, sem yrði endurskipulagður og með aukinni framleiðni, sóknarfæri og tækifæri. En það er alveg rétt, sem fram kom í máli seinasta ræðumanns, að GATT er að sjálfsögðu ekki bara um landbúnaðarmál. Það er almennt um markaðsaðgang og tollalækkanir eða tollaniðurfellingar. Það eru þjónustuviðskipti, það er um hugverkaréttindi sem t.d. formaður Kvikmyndasjóðs hlýtur að hafa mikinn áhuga á sem er hv. þm. sem hér talaði áðan. Það er um fjárfestingarstefnu og áhrif fjárfestingarréttinda á viðskipti, það er um nýjar reglur um lausn deilumála innan GATT, það er um stofnun nýrrar heimsviðskiptastofnunar sem m.a. mun þá fela það í sér að þeir sem sætu hjá fyrir Úrúgvæ-lotuna ættu á hættu að tapa áunnum réttindum úr fyrri viðskiptalotum. Það er um landbúnaðarþáttinn, það er um undirboðsaðgerðir og viðbrögð við því, það er um vefnaðariðnað, það er um tæknileg viðskipti, það er um sjávarafurðir, það er um umhverfismál. Hér á landi hefur það nú einhvern veginn farið svo að það er því sem næst eingöngu landbúnaðarþátturinn sem hefur verið til umræðu en úr því verður bætt á næstunni.
    Hv. þm. vildi fá að heyra hvað Úrúgvæ-lotan væri líkleg til að tryggja okkur á öðrum sviðum, ekki síst í sjávarútveginum. Þá er rétt að rifja upp að GATT-samkomulagið hefur tryggt okkur bestu kjör á mörkuðum 108 viðskiptaþjóða í fortíðinni. GATT hefur tryggt okkur greiðari aðgang að Bandaríkjamarkaði, Japansmarkaði og víðar fyrir sjávarafurðir. Almenna krafan núna er um 30% lækkun tolla á sjávarafurðum. Það kemur okkur ekki fyrst og fremst til góða á Evrópumörkuðum eða þar sem við höfum þegar fótfestu á lágum tollum en það skiptir miklu máli fyrir okkur á vaxtarsvæðum eins og t.d. í Austur-Asíu, Japan og Kóreu og víðar. Horfurnar á því hvort það næst, um það er það að segja að Evrópubandalagið er þar helsti þröskuldur í vegi vegna auðlindastefnu sinnar um kröfu um aðgang að auðlindum í staðinn fyrir tollfríðindi, en nýjustu fregnir benda til að það sé engan veginn borin von að þetta náist fram auk þess sem margar tvíhliða viðræður í sjávarútvegsmálum og ekki bara varðandi fiskafurðir heldur einnig tækniafurðir tengdar sjávarútvegi eru á því stigi að ef þær nást fram í tvíhliða viðræðum, þá verða þær almennar samkvæmt GATT-samkomulagi.
    GATT er fyrst og fremst brjóstvörn smáþjóða í alþjóðaviðskiptum vegna þess, og það þekkjum við öll, að í heimi hnefaréttarins ræður vald hins stóra. Þess vegna er GATT trygging smáríkja fyrir því að þau beri ekki skarðan hlut frá borði í alþjóðlegum viðskiptum. Við skulum hafa hugfast þegar við ræðum þessi mál að GATT hefur verið það tæki sem við höfum getað notað til að tryggja okkur afnám eða lækkun tolla í Bandaríkjunum á fiskblokk, á lagmeti, á ullarvörum, á humri, á hörpudiski og heilfrystum fiski, á þorskalýsi og osti. Ég slæ því föstu að í komandi lotu munum við enn styrkja stöðu okkar á þeim markaði vegna þess.
    Ég sagði áðan að í kjarna sínum væri GATT um þetta tvennt að lækka verð á lífsnauðsynjum og að auka framleiðni og vöruþróun með aðhaldi samkeppninnar frá sjónarmiði framleiðenda. Grundvallarreglan í GATT er ákaflega einföld. Hún er þessi:
    Í staðinn fyrir bann á innflutningi, í staðinn fyrir magntakmarkanir, kvóta, í staðinn fyrir ríkiseinokun á að koma tollígildi. Við umreiknum þá vernd sem er með svona óbeinum hætti yfir í tollígildi. Landbúnaðurinn mun búa við alveg óskerta samkeppnisstöðu í upphafi. Það er almenna reglan sem síðan trappast niður á 6 árum, fram að 2001 að meðaltali um 36%. Í ýmsum greinum má stilla það á 15%. En kjarni málsins er þessi: Tollígildin endurspegla þá vernd sem innflutningsbannið hefur veitt íslenskum landbúnaði hingað til. Þess vegna er hætt við því að mörgum bregði í brún þegar menn sjá að GATT-reglurnar muni þýða að í upphafi tímabilsins verða tollígildi á framleiðslustýrðum afurðum ef þær á annað borð verða í innflutningi af þessari stærðargráðu. Nautakjöt 358, svínakjöt 538, kindakjöt 397, kjúklingar 467, mjólk 586, jógúrt 589, smjör 674, ostar 570, egg 478. Þetta eru tollígildi. Og ef við berum þetta saman við hæstu rauntolla íslensku tollskrárinnar eins og það er eftir skattabyltinguna miklu 1987--1988 þegar við aðlöguðum tollskrána að svokölluðu samræmdu kerfi Brusselskrárinnar, þá er hæsti rauntollur í íslensku tollskránni almennt 35%. Alhæsta dæmi sem hægt er að nefna er sígarettur 50% af því að það er svona óhollustuextratollur. En þessar hollustuvörur eru svona háar.
    Nú þýðir ekkert að deila um það, þetta er bara reikningsdæmi. Þetta er munurinn á heimsmarkaðsverðinu samkvæmt nánari skilgreiningu, ýmist EB eða eins og Norðmenn hafa lagt okkur það í hendur og svo með okkar mati og á innlendu heildsöluverði. Þetta er upphafið. Við fáum regluna um að bönnin eru út. Við umreiknum bönnin yfir í tollígildi og síðan lækka þau mjög hóflega á 6 árum þannig að landbúnaðurinn og framleiðendur fá rúman tíma til þess að laga sig að samkeppnisástæðum.
    Síðan er eitt mál sem á að hnykkja ögn á þessu á umþóttunartímanum. Það er aðgangurinn að lágmarkinu 3--5% af markaðshlutdeild viðkomandi vörutegunda sem á að leggja á með lágum eða lágmarkstollum. Þar hefur það orðið niðurstaðan að því er varðar hið íslenska tilboð að við gerðum sama tilboð og Evrópubandalagið og Noregur með kannski smávegis frávikum að því er varðar útfærslu og þá þýðir það að í nautakjötinu lækkar það úr 358% tolli í 115%, kjúklingarnir úr 467 í 149 og smjörið úr 674 í 216 svo að ég nefni nokkur dæmi.
    Hugsunin á bak við þetta er sú að í þessari örlitlu markaðshlutdeild verði samt á umþóttunartímanum veittur forsmekkur að aðhaldi samkeppni og verðlækkun til neytenda, en þetta er hins vegar í svo litlum mæli að það er af og frá að þetta geri meira en að veita innlendum framleiðendum hollt aðhald. Menn hafa mikið verið að spyrja um útfærsluna. Ég ætla ekkert að segja um það á þessu stigi. Það hafa engar ákvarðanir verið um það teknar og það er nægur tími til þess að ráða því til lykta eins og hæstv. landbrh. sagði eftir því sem samningunum vindur fram.
    Ég sagði áðan að hin einfalda regla GATT væri þessi að það má ekki leggja tollígildi á vörur sem áður voru frjálsar í innflutningi. Og nú er það svo að þrátt fyrir allt tal um vernd eða stefnu okkar er um helmingur af þeim matvælum sem við neytum innfluttur og það eru viðamiklir vöruflokkar svo við nefnum sem dæmi kaffi, te, hveiti sykur, grænmeti og margt fleira. Þessar afurðir hafa yfirleitt verið fluttar inn, þ.e. það hefur verið frjáls innflutningur og það hefur verið núlltollur. Grundvallarregla GATT er sú að hin nýja skipan þrengi ekki markaðsaðgang eins og hann áður var. Um þetta er enginn ágreiningur t.d. hvorki að því er varðar umfjöllun fyrri ríkisstjórnar né núv. ríkisstjórnar.
    Því næst er því við að bæta að Íslendingar eru meðal þeirra þjóða sem í seinustu lotu gengu alllangt fram í því að taka á sig skuldbindingar sem eru svokallaðar GATT-bindingar, þ.e. það eru hámarksþök á þá tolla sem við ætlum okkur að leggja á, við megum ekki fara upp fyrir þá, en því næst er þess að geta að allar þessar tollbindingar eru heimildarákvæði. Það er grundvallarregla í íslenskum lögum að tolla eins og skatta beri að leggja á með lögum og það er síðan úrlausnarefni og stefnumál íslenskra stjórnvalda að hve miklu leyti við nýtum okkur þessar hámarksheimildir. Því hefur verið lýst yfir að um það sé pólitískt samkomulag innan ríkisstjórnarinnar að að því er varðar þá vöruflokka sem voru á núlltollum og voru frjálsir í innflutningi --- það má nú í fyrsta lagi ekki tollbinda þá og í öðru lagi ekki fara umfram GATT-bindingar --- en fyrir liggur sú yfirlýsing að við ætlum okkur ekki að leggja tolla á vörur sem áður voru ótollaðar. En þó er hér um að ræða mikilvæga undantekningu sem landbúnaðurinn hefur lagt mikla áherslu á og varðar innflutning skepnufóðurs. Þetta er nú í stórum dráttum kjarni málsins. En ég legg áherslu á það að lokum að fyrir utan þetta tilboð eins og það er fram komið þá hefur tekist um það pólitískt samkomulag innan ríkisstjórnarinnar eins og ég sagði að leggja ekki tolla á vörur sem áður voru núlltollaðar, á því verður einfaldlega engin breyting, og því næst að gera litla leiðréttingu að því er varðar tollun á kartöflum og unnum vörum úr kartöflum úr 120 í 90. Einfaldlega vegna þess að tollbinding okkar var 90.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegur forseti, að fara fleiri orðum um tæknileg atriði þessa máls. Ég tók eftir því að hv. þm. Ragnar Arnalds sagði að þegar samkomulag hefði tekist í byrjun janúar 1992 milli núverandi stjórnarflokka um tilboð okkar og þau skilyrði sem fram voru sett þá hefði utanrrh. verið sem betur fer víðs fjarri í háloftunum og hvergi komið nærri og þá treysti ég því að hann telji að samkomulagið sé harlagott því ekki hafi ég verið til að spilla því. Að vísu var það svo að ég var viðstaddur og átti fulla aðild og ber fulla ábyrgð á þeirri samþykkt og ég fullyrði að það tilboð sem hér er lagt fram er alveg í fullu samræmi við þá skilmála sem við settum og hefur verið fast á því haldið af hálfu hæstv. landbrh., það get ég fullvissað menn um, þ.e. að svo miklu leyti sem við erum í þeirri sérstöðu að hafa fellt niður útflutningsbætur áður þá var þarna áskilinn réttur til þess:
    1. að mæta því með magntakmörkunum,
    2. hugsanlega að bæta því inn í græna boxið eða bæta við tollígildi.
    Þetta er í okkar tilboði. Svo geta menn spurt hvort við náum þessu fram. Það er annað mál. En viðleitni okkar hefur verið sú að standa við þessa pólitísku yfirlýsingu svo sem okkur ber að gera.
    Ég vil að lokum nota tækifærið til að þakka hæstv. landbrh. fyrir gott samstarf. Hann hefur haldið fast á sínum málum, ég virði það. En ég held að niðurstaðan sé augljóslega af því taginu að báðir aðilar, svo sem hæstv. landbrh. vék að, neytendur og bændur, hafi sóma af.