Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 16:49:35 (1605)

[16:49]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. sagði: Það hefur ekki tekist að sýna fram á að við höfum náð neinum árangri í GATT fyrir sjávarútveg. Ég tók dæmin af því hvernig GATT hefur ráðið úrslitum um aðgang okkar að Bandaríkjamarkaði en á þeim markaðsaðgangi lifði þessi þjóð áratugum saman þótt nú hafi dregið úr. Í annan stað liggur alveg ljóst fyrir að við munum ná árangri á sjávarútvegssviðinu enn frekar. Við þurfum hins vegar ekki að stóla á þann árangur að því er varðar Evrópumarkaðinn fyrst og fremst vegna þess að þar höfum við EES sem tryggir okkur því sem næst tollfrjálsan markaðsaðgang. Af einhverjum ástæðum var hv. þm., sem nú aðhyllist útflutningsleið, á móti því. ( RA: Við viljum nýjan árangur.) Við erum að fá nýjan árangur með GATT, hv. þm., á því leikur enginn vafi. Og það er mesti misskilningur sem hv. þm. sagði að hér væri uppi krafa um að opna og opna og opna. Við erum hér að tala um gagnkvæmni. Sá sem segir: Ég vil fá tækifæri fyrir útflutningsafurðir minnar þjóðar á markaðnum hjá

þér, hlýtur náttúrlega að segja ef hinn aðilinn á ekki að bera skaða af, því viðskipti eru um gagnkvæman hag, þá hlýtur þú að vera á móti reiðubúinn til að opna í sama mæli þinn markað fyrir innflutningsafurðir hans. Annars ertu ekki útflutningsleiðarmaður heldur bara gamaldags haftamaður eins og Alþb. hefur alltaf verið. En GATT er náttúrlega ekki um það. GATT er um að brjóta niður bæði það kerfi og þá hugsun. Og ég held að það ætti að vera hv. þm. og formanni Kvikmyndasjóðs umhugsunarefni þegar hann ber saman t.d. bandarískan og franskan kvikmyndaiðnað. Hvers vegna er það að Bandaríkin eru heimsstórveldi í kvikmyndagerð og markaðssetningu kvikmynda þannig að mörgum, þar á meðal mér, ofbýður, og ég vil gjarnan hugsanlega grípa til einhvers konar aðgerða til þess að, af því að kvikmyndin er menningar- og uppeldismiðill, vega þar á móti? Það er vegna þess að bandarískur kvikmyndaiðnaður er markaðskerfi, kraftmikið samkeppniskerfi sem er búið að leggja heiminn að fótum sér. Franskur kvikmyndaiðnaður er á vonarvöl af því að ríkisstyrkirnir eru alveg að drepa hann.