Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 17:26:52 (1612)

[17:26]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er athyglisvert við þessar umræður hér í dag að hv. þm. Páll Pétursson, hinn umtalsfrómi maður, hefur ekki við að hæla mönnum en eðlið er samt við sig og ævinlega skal það vera á kostnað einhverra annarra. Það er staðreynd að hv. þm. sleit úr samhengi þessa einu setningu í ummælum aðstoðarmanns ráðherra. Hann var að gera grein fyrir því að við höfum haldið til streitu fyrirvörum að því er varðar sjúkdómavarnir. Hann veit að þar var sérstök áhersla lögð á hversu næmur íslenskur bústofn kann að vera fyrir smitsjúkdómum vegna einangrunar fyrr á tíð. Aðstoðarmaðurinn var að útskýra það eitt að það er gagnkvæm sönnunarbyrði. Það eina sem hann sagði var að það er ekki hægt að treysta því að við getum beitt heilbrigðisreglum sem viðskiptahindrunum. Við verðum að sanna að hér sé um raunverulega ástæður fyrir smithættu að ræða. Það styðst einfaldlega við rök og það á ekki að gera málið tortryggilegt af þeim sökum.
    Hv. þm. gerir sér greinilega far um að reyna að grafa undan trausti bænda á málstað hæstv. landbrh. með því að láta líta svo út sem hæstv. landbrh. hafi í einu og öllu farið hallloka fyrir frekjuganginum í þeim sem hér stendur. Því miður, og nú tek ég það skýrt fram, því miður var það nú ekki svo. Ég sagði að hæstv. landbrh. hefði haldið fast á sínu máli, mjög fast. Ég sagðist bera virðingu fyrir því þegar það leiðir til sanngjarnrar málamiðlunar. En bara til þess að taka eitt dæmi, þá má hann gjarnan hafa það eftir við bændur að mitt sjónarmið var það að því er varðar lágmarksaðganginn að þar ættum við ekki að fara mikið umfram hæstu rauntolla sem eru 35%. Ég gat fallist á að sígarettutollur um 50% væri eftir atvikum ásættanlegur. Niðurstöðuna sjá menn hér á blaði þar sem niðurstaðan er norska tilboðið eða EB-tilboðið, það lægsta 358 og það hæsta 674 þannig að tölurnar segja nú sína sögu um það að hæstv. landbrh. beit ekki í gras, eins og hv. þm. var að reyna að segja. Hann náði málamiðlun sem reyndar var nær því sem hann setti fram heldur en ég.