Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 17:30:44 (1614)

[17:30]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. hefur engin rök fært fyrir þessum fullyrðingum sínum. Engin. Það er ósatt mál að á blaðamannafundi sem var upplýsingafundur um þetta flókna mál hafi hvort heldur er ég eða mínir embættismenn verið að hælast um yfir nokkrum hlut. Við lögðum þar fram til kynningar upplýsingaefni um þetta flókna mál og ég tel það til fyrirmyndar þegar um er að ræða slíkt svo flókið mál því að það eiga allir rétt á því að fá af því greinargóðar upplýsingar.
    Hv. þm. er svo þungt haldinn samsæriskenningum að hann hélt því fram hér áðan að við landbrh. hefðum sett á svið einhver átök og síðan vill hann túlka það allt einhliða á þann veg að annar aðilinn hafi farið mjög halloka. Hann hefur engin rök fært fyrir þessu. Það er haldið til haga fyrirvörum um magntakmarkanir. Það er óbreytt frá samþykkt ríkisstjórnarinnar. Ég hef þegar skýrt frá því hver niðurstaðan varð út frá upphaflegum kröfum og óskum, mínum annars vegar og landbrh., að því er varðar lágmarksaðgang. Og að því er varðar það þriðja, tollígildin, þá er það staðreynd að það er einungis reikningsdæmi. Hlutirnir eru tollgildir en jafnframt gerðum við með okkur pólitískt samkomulag um það að fylgja þeirri meginreglu GATT að auka ekki á tolla, að takmarka ekki markaðsaðgang. Um þetta varð sem sé samkomulag og það er fjarri öllum sanni og illt verk reyndar, ef það er svo að bændur taki eitthvert mark á óðalsbóndaum á Höllustöðum, að rangtúlka þetta með þessum hætti.