Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 17:56:57 (1624)

[17:56]
     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
    Herra forseti. Mér fannst vini mínum Agli Jónssyni vera svolítið brugðið þegar hann var að lýsa ugg sínum. Ég held að ég fari rétt með það að hann hafi talið að hann hefði ekki getað fengið upplýsingar frá háskólanum, úr einhverri stofnun þar, og virtist ekki vera glaður yfir því. Og fleira fannst mér í hans röksemdafærslu vera þess eðlis, hann mun leiðrétta mig ef það er ekki, að hann sé enn þá með ugg í brjósti og telji að enn sé eftir að vinna úr þessum málum og enginn viti hvernig það muni allt saman geta orðið.
    Ég held að það sé engin ástæða til annars en að vera með svolítinn ugg út af þessu máli í heild sinni og þessum samskiptamálum við blessaðar Evrópuþjóðirnar í heild sinni. Ég vildi leyfa mér að spyrja hv. þm. að því hvort það sé svo að hann uggi um það að ekki komi nú allt til grafar eins og látið er í veðri vaka af þeim sem æstastir eru að koma okkur sem allra lengst inn í þessa baráttu sem einstakir menn á Íslandi og menn víðar annars staðar hafa háð til þess að, ja, frelsa heiminn líklega. Ég held að heimurinn frelsist ekki í Brussel eða hjá þessum samskiptamönnum okkar. En sérstaklega er það svo, hv. þm., ef ég hef skilið það rétt, að þú berir ugg í brjósti fyrir því að það muni verða erfiður eftirleikurinn.