Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 18:22:15 (1630)

[18:22]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að þetta ber að hafa í huga, skoða myndina alla, vegna þess að dæmin sem hann tók um það hvernig t.d. þróunarhjálp hinna ríku þjóða hafi í mörgum tilvikum orðið til þess að kippa fótunum undan innlendri landbúnaðarframleiðslu og gera þjóðir háðar innflutningi frá hinum ríku löndum, það er einmitt slík víti að varast. En þessar þjóðir standa frammi fyrir þeim vanda hvar þær eiga að hefja sína efnahagsþróun og lyfta sínum lífskjörum. Þetta eru ekki iðnvædd þjóðfélög, þetta eru vanþróuð þjóðfélög. Þau byggja fyrst og fremst á landbúnaði og ef eitthvað má taka mark á útflutningsleiðinni þá er það einmitt þetta. Þau þurfa að afla sér tekna og gjaldeyris af útflutningi hráefna og matvæla. Það gátu þau ekki bak við tollmúra hinna feitu, hvítu og ríku. Með því að brjóta þessa tollmúra niður opnast þeim ný leið til þess að koma afurðum sínum á markað, afla gjaldeyris til þess að byggja upp aðra og fjölbreyttari atvinnuvegi. Þetta yrði lykillinn að efnahagsþróun margra þessara landa og til þess standa miklar og ríkulegar vonir.