Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 18:30:30 (1634)

[18:30]
     Egill Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Austurl. hefur nú flutt hér mikilvægustu ræðu í sinni þingtíð. Hann svarar spurningu minni að því er varðar hugsanleg tekjuáhrif af GATT-samningum að þar gæti orðið um 5% að ræða, en það sem hann sagði þó með enn ótvíræðari hætti var það að hann hefði gert sér það fullkomlega ljóst að í búvörusamningnum, sem var þó óskabarn hv. 4. þm. Austurl., hefði verið fólgin ákvörðun um mikinn tekjusamdrátt í íslenskum landbúnaði. Og hann vefengdi ekki einu einasta orði það sem ég sagði í þessu sambandi um áhrif á kjör sauðfjárbænda. Hér hafa þess vegna fengist grundvallarniðurstöður í skoðunum hv. 4. þm. Austurl. svo að ekki verður vefengt.