Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 18:31:56 (1635)

[18:31]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Dálítið var nú frjálslega farið með það af hv. þm. Agli Jónssyni að ég væri að meta það svo að í GATT-samningnum fælist líklegur tekjusamdráttur upp á 5%. Hvernig í ósköpunum gat hv. þm. lagt það út af orðum mínum? Ég var að tala um innflutningsmörkin, 3--5%, 5% að hámarki, þar

sem ekki kemur til gjaldtaka á móti þar sem um verður að ræða vöru á langtum lægra verði. Tekjulegu áhrifin fyrir íslenskan landbúnað af þessum samningi eru því miður önnur og auðsæilega langtum meiri sem felst m.a. í því að á nokkurra ára bili mun þurfa að lækka gjöld sem lögð eru á til mótvægis, lækka þau að lágmarki um 15% með því sem þar til heyrir. Og hver ætli komi til með að bera þá lækkun? Það held ég að liggi nokkuð ljóst fyrir.
    Að því er varðar búvörusamninginn, þá ætla ég hvorki að deila um höfundarréttinn á honum hé heldur um mat á búvörusamningnum. Ég veit ekki betur en hv. þm. hafi verið einn af dyggustu stuðningsmönnum þess samnings. Hann var það í orði á Alþingi þá þegar í rauninni að honum gerðum og oft síðan hefur hann rifjað upp það happ að sá samningur var gerður. (Gripið fram í.) Hitt er alveg ljóst að áhrifin af þessum samningi hafa orðið lakari heldur en vonir stóðu til vegna þess hvernig farið hefur verið með markaðsstöðu íslenskra afurða á þessu tímabili.