Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 18:43:31 (1642)

[18:43]
     Björn Bjarnason :
    Herra forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram í máli hæstv. utanrrh. hér áðan að þetta eru sameiginlegar tillögur stjórnarflokkanna og ríkisstjórnin stendur að þeim tillögum sem hér eru til umræðu heil og óskipt og er alveg ástæðulaust að telja að þessar tillögur njóti ekki meirihlutastuðnings hér á hinu háa Alþingi.
    Ég vil aðeins víkja að því sem fram hefur komið og tilefni þessara umræðna sem eru þær að mönnum hefur þótt að þannig hafi verið haldið á þessu máli að þinginu hafi verið haldið utan við framgang þess og þingmenn hafi ekki haft tækifæri til að fylgjast nægilega vel með. Ég get ekki tekið undir þessi sjónarmið. Ég tel að þannig hafi verið staðið að þessum GATT-viðræðum alla tíð frá því að þær hófust árið 1986 að þinginu hafi alltaf gefist kostur á að fylgjast náið með hverju skrefi sem stigið hefur verið. Og varðandi stefnu íslenskra stjórnvalda á undanförnum tveimur árum, þá hefur þinginu verið gerð rækileg grein fyrir henni og rækilegri grein almennt fyrir stefnu stjórnarinnar í þessum mikilvægu samningaviðræðum heldur en jafnvel í öðrum mikilvægum samningum. Mér finnst það ekki fara vel núverandi stjórnarandstæðingum, sem stóðu að gerð EES-samkomulagsins og vildu ekki á sínum tíma að Alþingi kæmi að því og samþykkti t.d. fyrir fram umboð fyrir utanrrh. í því máli, að þeir gagnrýni þessa málsmeðferð.

Því að hinn 10. jan. 1992 var kynnt hér afdráttarlaus stefna ríkisstjórnarinnar og ég man það rétt að almenn ánægja var með þá stefnumótun og hún hefur ekki breyst í neinum grundvallaratriðum. Það sem hefur gerst síðan í þessu máli er það að fram hafa farið viðræður á GATT-vettvanginum sjálfum og menn hafa lagað viðhorf Íslands og íslenskra stjórnvalda í málinu að þeim meginlínum sem nú liggja í þessum GATT-viðræðum og þar styðjast menn núna helst við svokallað Blair House-samkomulag sem gert var á milli Bandaríkjanna og Evrópubandalagsins um landbúnaðarkafla GATT-viðræðnanna hinn 20. nóv. 1992. Það var ítarleg grein gerð fyrir þessu samkomulagi í skýrslu utanrrh. sem var rædd hér á þingi sl. vor og síðan hafa þessir meginþættir allir legið ljósir fyrir, enda hefur það komið í ljós í þessum umræðum í dag að þingmenn hafa málið alveg ljóst fyrir sér, þessar tillögur og þær hugmyndir sem liggja frammi, þeir eru ekki að gagnrýna efnisatriðin svo nokkru nemi. Það er verið að finna kannski að einstökum smávægilegum atriðum en meginstefnumörkunin virðist hér njóta stuðnings þeirra sem til máls taka eins og hún gerði í janúar 1992 þegar ríkisstjórnin kynnti sína meginstefnu. Og eins og menn sjá í þeim bréfum sem okkur hafa verið afhent er verið að vitna til stefnumótunar frá því í apríl 1992. Síðan er sagt, eins og kemur fram í bréfinu sem er dags. 16. nóv. 1993, að þessi stefnumótun, sem kynnt var af hálfu Íslands í apríl 1992 og byggðist á yfirlýsingunni frá því í janúar 1992, taki mið af Blair House-samkomulaginu og öðrum meginlínum sem lagðar hafa verið í þessum GATT-viðræðum.
    Mér finnst því algjörlega út í hött að láta eins og þingmenn hafi verið leyndir einhverju af því sem hér hefur verið að gerast. Þetta liggur allt ljóst fyrir. Það var ekki tímabært að mínu mati fyrr en í morgun að halda fund í utanrmn. og ég þakka hv. 1. þm. Norðurl. v. fyrir að knýja á um það í gær. Ég taldi að það væri ekki æskilegt að halda fund í utanrmn. fyrr en málið hefði verið rætt í landbn. Það var gert á tveimur fundum í vikunni og nú í morgun hittumst við í utanrmn. og fengum þá þessi gögn sem höfðu efnislega verið til meðferðar í landbn. og nú vitum við nákvæmlega hvernig þetta lítur út og hvernig þetta tilboð Íslands lítur út.
    Varðandi hins vegar framvindu málsins kann það að gerast að þetta tilboð reynist haldlítið ef GATT-viðræðurnar fara út um þúfur. Það er óljóst um það. Að vísu gefur sú atkvæðagreiðsla, sem fór fram á Bandaríkjaþingi í nótt um aðild Bandaríkjanna að Fríverslunarsvæði Norður-Ameríku, NAFTA, vonir um það að meiri hluti á Bandaríkjaþingi sé inni á þeim meginlínum sem hér eru lagðar varðandi aukið frjálsræði í alþjóðaviðskiptum. En eins og við vitum standa Frakkar enn þverir fyrir innan Evrópubandalagsins varðandi það hvernig leysa eigi landbúnaðarþáttinn og einnig varðandi hugverk og kvikmyndagerð eins og hér hefur fram komið þannig að það eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi efnisþætti málsins, en stefnt er að því að það gerist fyrir 15. des. nk.
    Varðandi framhald málsins hér á Alþingi og aðild Alþingis að þessu máli, þá tel ég sjálfsagt að fylgst verði með framvindunni, bæði á vettvangi utanrmn. og landbn. eins og við höfum gert, sérstaklega varðandi EES-samkomulagið og landbúnaðarþátt þess. Báðar nefndirnar hafa fylgst náið með því og eins og hér hefur komið fram á landbn. eftir að fá svar frá utanrrn. við bréfinu sem hv. formaður landbrn. ritaði og spurði einmitt um þessi atriði og utanrmn. mun að sjálfsögðu fá afrit af því eða fá það svar einnig og getur ávallt tekið þetta mál til umræðu og fylgst náið með því. Hvorug þessara nefnda --- landbn. sem kemur að málinu efnislega og utanrmn. sem kemur að því kannski frekar formlega, eins og máið hefur verið uppsett og unnið á vegum ríkisstjórnarinnar þar sem efnisatriði samkomulagsins eða tillagnanna koma frá landbrn. og síðan er það þá utanrrh. og utanrmn. sem kemur að því nú þegar það er komið á þennan vettvang, GATT-vettvanginn --- undan neinu að kvarta varðandi þau gögn og þær upplýsingar sem við höfum fengið frá utanrrn. um GATT-málið. Þar höfum við kannski frekar fleiri skjöl en færri til þess að fylgjast með því ferli öllu saman og við munum gera það áfram. Og ég mun beita mér fyrir því sem formaður og einnig fyrir samstarfi við hv. landbn. og vona að um það náist góð samstaða á milli nefndanna.
    Það er kannski ástæða fyrir fleiri nefndir þingsins að líta á einstaka þætti GATT-málsins þegar það kemst á lokastig, t.d. menntmn. varðandi hugverkaþáttinn og kvikmyndagerðina og fleiri hafa verið nefndir. Hér hafa verið fyrirspurnir í þinginu um iðnaðarmálin og sjávarútvegsmálin og allt skiptir þetta máli og utanrmn. gæti e.t.v. stuðlað að því að þær nefndir tækju upp umræður um einstaka efnisþætti þessa mikla samkomulags sem snertir okkur Íslendinga eins og alla heimsbyggðina.
    Mér þótti nú einna furðulegasta og fróðlegasta ræðan sem hér var flutt --- nú er hv. 4. þm. Austurl. því miður farinn úr salnum en hann flutti ræðu þar sem hann taldi að með GATT-viðræðunum væri heimsbyggðin öll á rangri leið, talaði eins og sá sem gæti haft vit fyrir allri heimsbyggðinni og hún væri öll á rangri leið með þessum samningum. Og hann mælti gegn alþjóðlegum viðskiptum. Hann taldi að það ætti ekki að stuðla að alþjóðlegum viðskiptum. Þau stuðluðu að því að orku yrði eytt til flutninga, væntanlega með skipum og flugvélum og ég skildi hann þannig að hann vildi helst draga úr samgöngum á milli þjóða og samskiptum á milli þjóða og hver þjóð ætti að búa að sínu. Þetta er sjónarmið sem er vissulega verðugt að ræða, en er algjört minnihlutasjónarmið, tel ég, þegar litið er á þau viðhorf sem ráða stefnumótun á heimsvísu varðandi þessi alþjóðlegu viðskipti.
    Það var furðulegt líka, eins og vakið hefur verið máls á, að þetta var hv. 4. þm. Austurl., sem er þingmaður í stjórnmálaflokki sem hefur mótað stefnu sem hann kennir við útflutning og alþjóðleg samskipti og að heyra slíka ræðu frá þingmanni þess flokks er með eindæmum. Raunar er það með eindæmum að sá flokkur skuli kenna stefnu sína við útflutning sem lagðist eindregið gegn aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, en það er náttúrlega í samræmi við þverstæðurnar í stefnumótun þess flokks og vandræðagang hans við eigin stefnumótun. En við urðum hér vitni að því enn að hv. 4. þm. Austurl. setur sig alltaf í sérstakar stellingar þegar alþjóðleg viðskipti ber á góma og nú telur hann heimsbyggðina alla á rangri vegferð með því að standa að gerð GATT-samkomulagsins.
    Ég vil, herra forseti, ítreka það sem ég sagði. Ég tel að það sé með öllu ástæðulaust að leggja mál hér þannig upp varðandi þessi GATT-mál að þingmönnum sé eitthvað sérstaklega haldið utan við þau. Við höfum alla möguleika til þess að fylgjast náið með því og ég mun beita mér fyrir því sem formaður utanrmn. að við fylgjumst með framhaldinu eins og við höfum gert til þessa og þetta mál verði rætt á vettvangi nefndarinnar og á vettvangi landbn. og e.t.v. á vettvangi fleiri nefnda í þinginu þegar ástæða þykir til.