Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 19:11:06 (1645)

[19:11]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Það var athyglisvert um ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannesar Geirs, að hann eyddi mestum hluta ræðu sinnar í alls konar málalengingar og umbúðir en í niðurstöðu ræðu sinnar skýrði hann frá því að hann væri þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt væri fyrir okkur að ganga að GATT-samkomulaginu og gagnrýndi ekki eitt einasta efnisatriði þess tilboðs sem nú liggur fyrir.
    Ég hlýt á hinn bóginn að láta í ljósi séstaka undrun mína yfir því að hann skuli í fyrsta lagi nota það orðalag að í landbn. hafi menn gert þá kröfu til aðstoðarmanns landbrh. að hann gerði grein fyrir stöðu GATT-málsins. Venjulega talar maður um kröfu ef synjað hefur verið um málaleitan. Ég veit ekki til þess að landbn. hafi í eitt einasta skipti orðið að gera kröfu til þess að fá þær upplýsingar sem hafa verið til reiðu hverju sinni um GATT-málið þannig að það er gersamlega úr lausu lofti gripið að landbrn. með einum eða öðrum hætti hafi gert tilraun til þess að dylja landbn. eins eða neins í þessu sambandi. Undirbúningur þessa máls var unninn á vegum landbrn. Undirbúningurinn var unninn í nánu sambandi og samráði bæði við framleiðsluráð og bændasamtökin. Þetta tilboð lág fyrir í grófum dráttum í aprílmánuði 1992. Ég veit ekki betur en mönnum hafi verið ljóst efnislega hvað stóð í því tilboði sem lagt var fram í ríkisstjórninni í septembermánuði, enda var það kynnt öðrum þjóðum og fór ekki leynt. Það kom ekki ein einasta beiðni til mín frá hv. þm. stjórnarandstöðu eða neinum um það hvernig það tilboð væri sem ég synjaði um.