Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 19:16:01 (1648)

[19:16]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég get sagt það hér úr þessum ræðustól að ég geri ekki stórar athugasemdir við það tilboð sem hér var sent út núna, enda er það í meginatriðum samkvæmt þeirri yfirlýsingu sem hæstv.

ríkisstjórn gaf í janúar 1992. En ég minni hæstv. ráðherra á það að sú yfirlýsing var pínd út úr hæstv. ríkisstjórn eftir að bændasamtök og sveitafólk um allt land hafði staðið fyrir fjölmennum fundum til þess að mótmæla linlegri og slælegri framgöngu núv. hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli.
    Ég hlýt einnig að benda á það hér í þessum stutta tíma sem ég hef hérna að hæstv. ráðherra hefur í tvígang vikið sér undan að svara einfaldri spurningu um hvað liði lagabreytingu í þá veru sem unnið var að á síðasta vori og landbn. var nánast samhljóða búin að ná samstöðu um. Fyrir lá mikill meiri hluti þingsins um hvernig farið væri með þær heimildir sem væru um innflutning á búvörum í íslenskum lögum. Ég hef spurt hæstv. ráðherra hvort það hafi verið gengið frá þessu í heiðursmannasamkomulagi hans við hæstv. utanrrh., hvernig farið yrði varðandi þessa lagabreytingu. Hæstv. ráðherra hefur kosið að þegja þunnu hljóði um þetta mál og það segir að mínu mati sína sögu.