Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 19:17:59 (1649)

[19:17]
     Egill Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þessar tvær ræður tveggja hv. þm. Framsfl., Páls Péturssonar og nú síðasta hv. þm., Jóhannesar Geirs, eru ákaflega mikilvægt innlegg í þessa umræðu. Það er að sjálfsögðu þýðingarmikið að það komi fram með jafnótvíræðum hætti og nú liggur fyrir að það er ekki svo ýkjamikið sem skilur menn að í þessu máli.
    Það sem hv. þm. sagði um vinnubrögð í landbn. er rétt frá sagt. Það er náttúrlega allt annað en það að við höfum verið leyndir upplýsingum. Það var kannski sérstaklega vegna þessarar framsetningar sem það hefði gjarnan mátt koma fram að það voru fyrir því sérstakar ástæður að það frestaðist að afhenda okkur gögn málsins sem gerðu það að verkum að við fengum þau einum sólarhring seinna en ella hefði verið, en úr því var reynt að bæta með fundinum í hádeginu í gær sem var afar gagnlegur.