Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 19:21:06 (1651)

[19:21]
     Jón Helgason :
    Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir þau svör sem hann gaf mér þó ég hafi saknað annarra. Einnig fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram og ég skal aðeins í örfáum orðum reyna að draga fram þau aðalatriði. Það er rétt sem hér hefur komið fram að það var þrennt sem ég lagði til grundvallar við beiðni mína. Í fyrsta lagi voru það efnisatriði þeirrar samþykktar sem hér hefur verið til umræðu frá ríkisstjórninni. Í öðru lagi voru það vinnubrögðin og síðan er það framtíðin.
    Ég ræddi eingöngu um þau efnisatriði þar sem þessi nýja samþykkt víkur frá hinni fyrri og um eina þeirra athugasemda upplýsti hæstv. landbrh. að þar hefði verið um vangá að ræða og það yrði leiðrétt með að verðbæta einnig útflutningsbætur vegna gengisbreytinga þegar til þeirra kemur og ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir það.
    Síðan dró ég það fram og það var staðfest af ráðherrum ég held báðum að það væri ekki lengur í þessu reynt að halda fram einhverjum rétti okkar vegna þess að útflutningsbætur hefðu algerlega verið felldar niður. Það væri talið vonlaust. Í þriðja lagi benti ég á að í plaggi sem var í þessum gögnum frá ríkisstjórninni var sagt að það væru litlar líkur taldar á að það væri hægt að fá í gegn magntakmarkanir á kindakjöti og mjólk sem eru undir framleiðslustýringu. Mér fannst hæstv. landbrh. ásaka mig fyrir að hafa dregið þetta atriði fram í umræðu hér. En það er enn þá skýrara dregið fram í blaðafréttum eftir fundinn sem nú er upplýst að var til þess að greina fjölmiðlum frá því sem ríkisstjórnin hafði komist að samkomulagi um. Þennan upplýsingafund sem hæstv. utanrrh. hélt og sagði hér að væri mjög nauðsynlegur til þess að láta fréttamenn fylgjast með. Þar segir svo í einni blaðafréttinni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Embættismenn í utanríkisráðuneytinu segja engar líkur á að þessi röksemd verði viðurkennd af

samningamönnum GATT. Viðræðurnar hafi þróast í þá átt að ekki verði leyft að tengja einstakar viðskiptahindranir saman.`` Þannig að þarna er nokkuð stíft að orði kveðið.
    Ég verð enn þá að halda því fram að mér finnst það vera niðurlæging fyrir Alþingi að hæstv. utanrrh. skuli telja brýna þörf á því að kynna málið fyrir fréttamönnum áður en alþingismenn og jafnvel trúnaðarmenn Alþingis í nefndum fá gögnin í hendur. Ég spurði að því hér í dag hver væri þörfin fyrir þessa miklu leynd að alþingismenn mættu ekki fá þetta jafnvel eftir að búið er að kynna það fjölmiðlum. Hvað er það sem veldur því að þetta er svona ákaflega mikið leyniplagg? Þó get ég tekið undir að það er ekki mikið vikið þarna frá fyrri atriðum og ég hef gert grein fyrir þeim.
    En þá er það framtíðin. Mér finnst einhver alvarlegasta yfirlýsingin sem hér hefur komið fram í dag vera frá hæstv. landbrh. sem svar við minni ræðu, atriðið sem hv. 6. þm. Norðurl. e. var að spyrja um. Hvaða ráðuneyti muni fara með innflutningsmálin í framtíðinni. Hæstv. landbrh. sagðist ekki geta tjáð sig um það. Þetta finnst mér vera ákaflega slæm yfirlýsing. Það er þessi óvissa um framtíðina sem er að sjálfsögðu mjög slæm fyrir íslenskan landbúnað. Ég held að það sé öllum ljóst að það hlýtur að velta á miklu út frá hvaða sjónarmiðum verður fjallað um innflutningsheimildir. Hvort það verður frá sjónarmiðum viðskrn., utanrrn., fjmrn. eða landbrn. Að minnsta kosti eins og túlkuð hafa verið viðhorf þessara ráðuneyta. Þó verð ég að viðurkenna að ég hrökk við og hugsaði, kannski er þetta nú ekki eins mikill munur þarna á milli og maður hefði haldið eftir þá miklu traustsyfirlýsingu sem hv. 3. þm. Austurl. gaf hér á hæstv. utanrrh. þegar hv. þm. sagði að hann vonaðist til að hæstv. utanrrh. ásamt hæstv. landbrh. yrði sem lengst við völd. ( JGS: Sagðir þú þetta, Egill?) Ja, það gat ég ekki skilið öðruvísi. Hann vonaðist til þess að þessir ráðherrar sætu áfram í ráðherrastólum. Ég hef þá algjörlega misskilið ræðu hv. 3. þm. Austurl. ef það er ekki rétt skilið hjá mér. ( EgJ: Það er nú annað heldur en ,,sæti sem lengst``.) Já, það er kannski fagnaðarefni ef hv. þm. vill fara að draga þarna dálítið í land. ( JGS: Hann ætlaði að leysa klárinn frá.) Já, það er annar tónn en hefur komið fram í dag. Alveg gjörólíkur tónn í ræðunni. En engu að síður þá eru þetta mikil óvissuatriði fyrir íslenskan landbúnað hvernig verður á þessum málum haldið í framtíðinni. Íslenskur landbúnaður vill reyna að sigrast á öllum erfiðleikum sem að honum steðja og vinna sig út úr þeim. En það er að sjálfsögðu margfalt erfiðara ef hann veit ekki degi lengur hvernig aðstæður hann á að búa við, hvernig ríkisvaldið ætlar að halda á sínum málum. Að vísu var eitt sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. sem stingur algörlega í stúf við gjörðir hans og orð, undanfarna mánuði og lengur, þegar hann segir: ,,Það er víti að varast að gera þjóðir háðar innflutningi búvara.`` Hann var að vísu að tala þar um þróunarþjóðirnar í Afríku. En ætlar hann þá að leiða það víti sem hann telur að beri að varast fyrir þróunarþjóðirnar yfir okkur Íslendinga? Ég vonast til þess að hann fari að snúa þarna við blaðinu og þá meira en í orði og umhyggju fyrir Afríkuþjóðum heldur hugsi einnig um íslenska þjóð.
    Það hafa sem sagt verið bæði jákvæð og neikvæð atriði sem hér hafa komið fram en ég vil vonast til að þessi umræða verði þó til þess að vekja athygli á þörfinni fyrir það að standa vel í ístaðinu fyrir íslenskan landbúnað og gæta hans hagsmuna vel í hvívetna. Ég taldi ekki þörf á því og mun ekki hafa gert það í máli mínu að taka það fram að að sjálfsögðu er ég sömu skoðunar og aðrir hv. alþingismenn að við Íslendingar hverfum ekki úr samstarfi í GATT. En það er einmitt þess vegna sem ég tel svo mikilvægt að þarna sé sem best á málum haldið af því að við eigum ekki annarra kosta völ en að vera þátttakendur. Eins og hér hefur komið fram í umræðunum áður þá eru það allar þjóðir í kringum okkur og allir í heiminum sem reyna að gæta sinna hagsmuna í þeirri togstreitu um landbúnaðinn. Og þá er það auðvitað gjörsamlega útilokað að við Íslendingar stöndum þar ekki vel á verði.