Breytingar á sjúkrahúsmálum

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 15:10:07 (1666)

[15:10]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það gerðist sl. miðvikudag að kynntar voru ítarlega í fjölmiðlum tillögur starfsnefndar á vegum hæstv. heilbrrh., nefndar sem fyrst og fremst er skipuð embættismönnum úr heilbrigðiskerfinu, varðandi breytingar á skipan sjúkrahúsmála í landinu.
    Ég gerði athugasemd við það í upphafi fundar sl. fimmtudag að þessari skýrslu hefði ekki verið komið á framfæri við hv. Alþingi áður eða a.m.k. jafnhliða því sem hún væri kynnt fjölmiðlum og að forstöðumenn þeirra stofnana sem í hlut eiga skyldu ekki hafa fengið aðgang að þessari skýrslu og þeim tillögum sem hún hefur að geyma.
    Ég ætlaði satt að segja ekki að trúa mínum eyrum þegar þingmenn tjáðu mér það nú á miðjum þessum degi að ekki hefði verið ráðin bót á því af hálfu ráðuneytisins að koma þessum tillögum á framfæri þrátt fyrir þær aðfinnslur sem fram komu hjá mörgum hv. þm. varðandi þennan þátt málsins sl. fimmtudag. Málið var ekki rætt af minni hálfu efnislega vegna fjarveru hæstv. heilbrrh., hann var erlendis en er kominn til þingstarfa á ný. Ég leyfi mér hér, virðulegur forseti, að beina til hæstv. ráðherra eftirfarandi spurningum:
    1. Telur heilbrrh. eðlilegt að kynna skýrslu ráðuneytisins í fjölmiðlum áður en hún er send alþingismönnum og forráðamönnum viðkomandi stofnana?
    2. Er ráðherra ljóst að skýrsluhöfundar ganga út frá röngum forsendum í sínu plaggi m.a. um þróun samgangna?
    3. Hvernig má það vera að horft er fram hjá þætti Almannavarna í vinnu þessarar stjórnskipuðu nefndar?
    4. Telur ráðherra koma til greina að á öllu austanverðu landinu verði ekkert svæðissjúkrahús með sérfræðiþjónustu, eins og beinlínis er lagt til í skýrslu nefndarinnar?
    Það má lesa út úr þessari skýrslu m.a. að tillöguhöfundar hafi gert sér það ljóst að ýmsum þætti vegið nokkuð að byggðasjónarmiðum í landinu og er um það fjallað á bls. 65, þar sem þó segir að þessar tillögur gangi þó í aðalatriðum ekki í þá átt að flytja þjónustu til Reykjavíkur. En varðandi einn landshluta, Austurland, segir: ,,Aðeins á Austfjörðum er stefnt að því að veita aukna þjónustu utan fjórðungsins. Það stafar af því að samgöngur og staðsetning stofnana leyfir ekki hagkvæma þjónustu á svæðinu.``
    Um þetta er nánar fjallað í sérstökum tillögum þar sem horfið er frá því að efla svæðissjúkrahús á svæðinu og áætlað er, með orðum skýrslunnar, að sjúkrahúsin þrjú á Austfjörðum verði hjúkrunarsjúkrahús eða jafnvel að sjúkrahúsið á Seyðisfirði verði skilgreint sem hjúkrunarheimili.
    Að því er snertir samgönguþáttinn þá er augljóst að nefndin gengur út frá aðstæðum sem voru til skamms tíma vissulega þar sem Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað var nokkuð einangrað að vetrarlagi vegna samgönguerfiðleika, en þar er verið að kosta til vel á annað hundrað millj. kr. þessi árin til þess að byggja upp nýjan veg og sjálf Vegagerðin hefur gefið út það álit opinberlega að það kosti að þessari vegabót lokinni ekki meira að ryðja daglega til Neskaupstaðar heldur en það hefur kostað hingað til þrisvar í viku.
    Er eitthvert samhengi hér í hlutunum? Veit ekki Stjórnarráðið hvað er að gerast varðandi grundvallarþætti og þeir starfsmenn sem settir eru til verka? Þetta er með miklum endemum og ég er ansi hræddur um að þetta geti varðað fleiri svæði á landinu, þó að ég hafi ekki sett mig inn í það í einstökum atriðum, t.d. Norðurl. v. þar sem mér sýnist að stefnt sé ekki í ósvipaða átt og með Austurland og er þó kannski ekki jafnlangt að sækja og þaðan. Veit ekki hæstv. ráðherra og starfsmenn ráðuneytisins að það eru margir dagar á ári hverju þar sem ekki er flugfært milli Austurlands og annarra landshluta? Þar sem nota verður það sem til er á svæðinu, m.a. fyrir sjómennina á miðum úti. Menn heyrðu sl. föstudag í forstjóra Almannavarna ríkisins sem eðlilega undraðist það mjög að ekki virtist tekið hið minnsta tillit til almannavarnaþátta þegar plagg af þessu tagi er saman sett. (Forseti hringir.)
    Ég vænti þess, virðulegur forseti, að við fáum nokkuð skýr svör frá hæstv. heilbrrh. hvert verið er að fara, hvert hann ætlar að stefna á grundvelli þessa plaggs sem unnið er í hans ráðuneyti.