Breytingar á sjúkrahúsmálum

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 15:38:56 (1675)



[15:38]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég bar upp fjórar fyrirspurnir við hæstv. ráðherra. Ráðherrann baðst afsökunar á þeirri stöðu sem fyrir liggur að þetta plagg er eitthvert það vandfengnasta í landinu um þessar mundir og úr því verður nú væntanlega bætt með einhverjum hætti, hæstv. ráðherra, ef á að dreifa þessu plaggi þrátt fyrir þær aðvaranir sem hér hafa komið fram.
    Í öðru lagi spurði ég hæstv. ráðherra hvort honum sé ljóst að það sé gengið út frá röngum forsendum í þessari skýrslu. Ekki var neitt svar við því eða neitt mat frá hæstv. ráðherra á því máli. Hann sagði þvert á móti að hér væri fyrst og fremst verið að búa svo um að hið háa Alþingi gæti haft gagnlegt tæki um notkun á viðkomandi spítölum, gagnlegt tæki. Það var mat ráðherrans. Og hægt væri að ræða þessi mál á grundvelli upplýsinga.
    Í þriðja lagi spurði ég ráðherrann að því hvernig það mætti vera að horft væri fram hjá þætti almannavarna í máli sem þessu. Ekkert svar, ekki neitt.
    Í fjórða lagi hvort ráðherrann teldi koma til greina að á öllu austanverðu landinu verði ekkert svæðissjúkrahús með sérfræðiþjónustu. Ekkert svar. Engin skoðun af hálfu ráðherrans á því máli.
    Hér hefur verið vakin athygli á því af mörgum hv. alþm. að þessi skýrsla er uppfull af röngum upplýsingum. Og það er ekki í fyrsta sinn sem verið er að halda upplýsingum frá þingmönnum og þeim stofnunum sem í hlut eiga því að í formála þessarar skýrslu er tekið fram að gögnum sem áður lágu fyrir um starfsemi sjúkrahúsanna hafi verið dreift til framkvæmdastjóra stóru sjúkrahúsanna. Takið þið eftir, stóru sjúkrahúsanna, ekki þeirra spítala sem hér er aðallega vegið að. Þeir virðast ekki hafa fengið þá forsögu málsins sem hér liggur fyrir.
    Ég minni á að fram hefur komið í þessu máli m.a. hjá landlækni að það eru fleiri kostnaðarþættir sem tengjast því en varðar hið opinbera. Það er kostnaðarþáttur sjúklinganna, viðskiptaaðila sjúkrahúsanna.