Rekstur leikskóla á vegum sjúkrahúsa

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 15:55:49 (1680)



[15:55]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þjóðin bjó við þá ógæfu um nokkurra missira skeið að hafa ráðherra í heilbrigðismálum úr Alþfl. sem heitir Sighvatur Björgvinsson. Hann tók aldrei sönsum. Hann tók aldrei rökum af neinu tagi. Hann barði ævinlega höfðinu við steininn. Það var því mörgum létt þegar það spurðist að ungur bæjarstjóri úr Hafnarfirði hefði ákveðið að taka það að sér að vera heilbrrh.
    Hann hefur hins vegar ákveðið að fara þveröfugt í hlutina. Hann étur hlutina yfirleitt ofan í sig í áföngum og það er í raun og veru mjög erfitt að átta sig á því, fyrir þá sem hlut eiga að máli, hvar hann er staddur í máltíðinni þá og þá. Það var t.d. ekki ljóst í ræðu hans hér áðan. Hann kaus að hlaupa eftir misvitrum landsbyggðarþingmönnum úr Sjálfstfl. og Alþfl. til að ráðast á leikskóla spítalanna hér í borginni og í nágrenni og því miður lýsti hann því yfir: Þessu á að loka.
    Skömmu síðar sagði hann, þann 30. sept.: Starfsfólk verður endurráðið. Síðan sagði hann þann 18. okt.: Öllum börnum verður tryggt pláss. Síðan sagði hann 5. nóv.: Þau börn fá inni, fá að vera þarna áfram sem eru með pláss. 16. nóv. var sagt: Það verður borgað á barn. 17. nóv. var sagt: Það verður borgað á rými. Í dag veit enginn hvar þetta endar. Ég skora á hæstv. heilbr.- og trmrh. að éta þetta mál ofan í sig í heild tafarlaust, ,,komplet`` eins og það liggur fyrir. Því það er útilokað fyrir þær fjölskyldur sem bera ábyrgð á þeim 700 börnum sem hér er um að ræða að bíða stundinni lengur eftir lyktum málsins. Það er mánuður til stefnu og ráðherrann á að skilja að hann á að vinna sín embættisverk svo vel að hann svari hlutum þegar í stað en láti þá ekki dingla í lausu lofti langtímum saman, jafnvel þó hann hafi kosið að þiggja ráð frá hv. formanni heilbr.- og trn. sem er ekki góður ráðgjafi í þessu máli.