Rekstur leikskóla á vegum sjúkrahúsa

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:00:49 (1682)



[16:00]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Fyrir rúmum sex vikum ræddum við utan dagskrár málefni leikskóla sjúkrahúsanna og benti ég í þeirri umræðu á þá sérstöðu sem þessar stofnanir hafa. Benti ég m.a. á sveigjanlega vistun barna sem færi eftir vinnutíma foreldra og að slíka þjónustu væri ekki hægt að fá á öðrum sambærilegum stofnunum. Enn fremur benti ég á að þessi þjónusta sjúkrahúsanna við starfsmenn sína væri hlunnindi til starfsfólks og færu þessi hlunnindi eftir ákveðnum reglum þar sem forgangur væri m.a. veittur þeim sem kæmu til starfa á deildum þar sem mannekla væri.
    Við getum stöðugt deilt um það hvort hlunnindi í þessu formi eigi rétt á sér og ég tek undir með þeim sem ræða um skyldur sveitarfélaga í þessu efni en ég vil jafnframt benda á hlunnindi annarra ríkisstarfsmanna, svo sem þeirra sem hafa fasta yfirvinnu og hlunnindi í einkageiranum eins og t.d. hjá flugfélögum í formi farmiðaafsláttar og fleira mætti telja til. Ég vil hins vegar árétta að þetta fyrirkomulag hefur reynst sjúkrahúsunum afar vel og leyst mýmörg vandamál við ráðningar á starfsfólki til spítalanna. Mun minni hreyfing hefur reynst vera á starfsfólki og vinnuveitandinn hefur getað sett fram ákveðnar kröfur um vinnuskyldu til að sem mest hagræðing næðist í starfsmannahaldinu og jafnvægi jafnframt.
    Stjórnir sjúkrahúsanna hafa einnig sýnt vilja sinn fyrir áframhaldandi fyrirkomulagi. Vinnuhópur, sem heilbrrh. skipaði í október sl., skilaði áliti 5. nóv. og segir þar mikilvægt að sjúkrahúsin reyni að standa þannig að málum að rekstur leikskóla sjúkrahúsanna haldi áfram og reynt verði með samkomulagi að tryggja áframhaldandi rekstur leikskóla sjúkrahúsanna og að ráðuneytið beiti sér í viðræðum við viðkomandi sveitarfélög. Nú sex vikum eftir síðustu umræðu um þetta mál á hinu háa Alþingi er enn allt í óvissu um framgang þessara mála.
    Ég ætla ekki að fara nánar út í tilboð ráðuneytisins til sjúkrahúsanna um kostnaðarhlutdeild ríkisins í þessum rekstri sem enn er deilt um. Hins vegar vil ég lýsa vonbrigðum mínum yfir því að enn hafi ekki tekist að koma þessu máli á hreint. Dráttur á lausn hefur þegar haft afar slæm áhrif á starfsanda innan sjúkrahúsanna. Foreldrum er haldið í óvissu um vistun barna sinna, fóstrum þessara stofnana er haldið í óvissu um starf sitt og börnin fá sinn skammt. Það þarf að ná sáttum um þetta mál strax.