Rekstur leikskóla á vegum sjúkrahúsa

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:07:50 (1685)



[16:07]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar hefur verið rætt nokkuð ítarlega á Alþingi vegna þess að þetta er í þriðja sinn sem það er tekið fyrir.
    Í fyrsta skipti var það vegna tillögu sem við hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson fluttum og um skapaðist þverpólitísk samstaða, pólitísk samstaða fulltrúa allra stjórnmálaflokka hér á Alþingi. Þess vegna er það náttúrlega mjög sérkennilegt en um leið býsna kátbroslegt þegar hv. þm. Svavar Gestsson segir að þegar hæstv. heilbrrh. hafi tekið þá ákvörðun að færa rekstur leikskólanna frá ríkinu til sveitarfélaganna eins og ber að gera samkvæmt lögum, þá sé hann að hlaupa þar eftir misvitrum landsbyggðarþingmönnum Alþfl. og Sjálfstfl. Hverjir voru það sem lýstu stuðningi við á hugmynd að færa rekstur leikskólanna frá sjúkrahúsunum til sveitarfélaganna eins og lög gera ráð fyrir? Það var framsóknarmaðurinn, hv. þm. Guðmundur Bjarnason. Það var fulltrúi Kvennalistans, hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, það var fulltrúi Alþb., hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og síðan kom það fram í þessum umræðum að það var enginn annar en hv. þm. Svavar Gestsson sem ásamt hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni hafði átt að því sérstakt frumkvæði í stjórnarnefnd Ríkisspítalanna að óska eftir því að þetta verkefni yrði fært frá sjúkrahúsunum til sveitarfélaganna eins og lög gera ráð fyrir. Þessi deila sem hér er verið að vekja upp snýst einfaldlega um þá fyrirætlan að færa þetta verkefni frá sjúkrahúsunum til sveitarfélaganna alveg eins og lög gera ráð fyrir.
    Það hefur komið fram hjá hæstv. heilbrrh. eins og ég raunar hvatti til í umræðunni, sem fram fór hér fyrr í haust, að það eigi að fara í þetta af varkárni og það eigi að gera þetta smám saman, og ekki að ganga í þetta af offorsi. Ég minnist þess ekki úr þeirri umræðu sem fram fór í haust að menn væru að efast um það að þetta verkefni ætti að vera á hendi sveitarfélaganna og ég spyr þá sérstaklega eftir því: Er það skoðun einhverra að þetta verkefni eigi að vera á hendi ríkisins? Er það ekki skoðun allra að þetta verkefni á Stór-Reykjavíkursvæðinu eigi líka að vera á hendi sveitarfélaganna alveg eins og það er alls staðar vítt og breitt um landið?