Rekstur leikskóla á vegum sjúkrahúsa

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:18:07 (1690)



[16:18]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Hver er hin stóra óvissa í þessu máli? Hér mætti ætla það af ræðum hv. þm. að stolið hafi verið glæp. Það er alls ekki þannig. Það er akkúrat með þeim hætti að hverjum óvissuþættinum á fætur öðrum hefur verið eytt hægt og bítandi. Það eru nokkur atriði sem eins og ég gat um áðan, sem við erum að hnýta. Í fyrsta lagi þetta: Öll börn sem hafa verið á leikskólum spítalanna fá boð um að vera þar áfram svo lengi sem þau eru á leikskólaaldri. Starfsfólkið allt hefur fengið tilboð um endurráðningu. Hvar eru hinir stóru óvissuþættir þegar þessi stóru mál, sem voru uppi eðli máls samkvæmt fyrr á hausti, eru leyst? Hér staldra menn þá kannski við það lítillega misvægi sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir kom inn á sem er þetta:
    Hugmyndir ráðuneytisins voru um 14 þús. kr. á hvert rými. Hvernig getur það verið með öðrum hætti þegar menn horfa til þess að ef börn eru tvö á hvert rými, þá þýðir framlag ráðuneytisins og ríkisins 28 þús. kr., tvöfalt framlag borgarinnar, 42 þús. Það þýðir þénustan er orðin meiri með þessum styrkjum borgar og ríkis en heildarkostnaðurinn. Þannig að, virðulegi forseti, hér er verið að gera úlfalda úr mýflugu og ég bið hv. þingheim um að gefa ráðuneytinu og viðkomandi hagsmunaaðilum vinnufrið til þess að hnýta þessa síðustu enda. Ég hygg að það sé stutt í það.