Framtíðarskipulag á Laugarvatni

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:21:26 (1691)

[16:21]
     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 184 ber ég fram fsp. til hæstv. menntmrh. um framtíðarskipulag á Laugarvatni. Um nokkurra ára skeið hafa staðið yfir samningaumleitanir milli menntmrn., héraðsnefndar Árnessýslu, áður sýslunefndar, og heimamanna á Laugarvatni um hreinni verkaskiptingu milli allra þessara aðila um skipulag og forræði mála á Laugarvatni.
    Það virðist nokkuð einkennilegt að á tímum vaxandi umræðu um nauðsyn þess að færa aukin völd og ákvörðunarrétt í eigin málum til sveitarfélaga, er hér eitt sveitarfélag, Laugarvatnshreppur, sem býr við það að verða að sækja nánast allar ákvarðanir í stærri málum sveitarfélagsins til eins ráðuneytis, þ.e. til menntmrn. Svona hefur þetta verið svo lengi sem elstu menn muna. Það að menntmrn. eða skólanefnd færi með forræði mála á Laugarvatni hefur sjálfsagt gengið upp á meðan einungis var um að ræða lítinn byggðarkjarna utan um ríkisrekna skóla á staðnum en í seinni tíð hefur hreppurinn eflst mjög og þó enn sé um að ræða öfluga skólastarfsemi á Laugarvatni hefur staðurinn fengið aukið vægi á öllum sviðum. Auk þess hafa á undanförnum árum verið sett lög sem fela sveitarstjórnum sífellt fleiri og viðameiri verkefni. Sveitarstjórn Laugardalshrepps fær að sjálfsögðu þessi verkefni um leið og önnur sveitarfélög en getur þó ekki sinnt þeim á sama hátt því í mörgum stærri málum verður hún að sækja til menntmrn. sem fram til þessa hefur ekki viljað láta þetta vald sitt af hendi.
    Sem dæmi má nefna allt er lýtur að skipulagsmálum. Skipulags- og byggingarlög fela sveitarfélögum á kveðið hlutverk og þau fara að vissu marki með ákvörðunarvald í þeim málum. Á Laugarvatni er hins vegar svo að þar verður sveitarstjórnin í mörgum tilvikum að leita vilja ráðuneytis menntamála hvað varðar skipulagsmál. Eitt dæmi er starfsemi gróðrastöðvar sem rekin er niður við Laugavatn. Stöðin hefur verið rekin þar árum saman og er orðin fastur punktur í atvinnulífi staðarins. Fyrir rúmu ári fengu garðyrkjubændurnir sem stöðina reka fyrirskipun frá menntmrn., sem á landið, að færa starfsemina á stað sem væri ráðuneytinu þóknanlegri því stöðin og starfsemin sem þarna var rekin rúmaðist ekki innan þess skipulags sem ráðuneytið vildi sjá á staðnum. Ekki var greint frá því að ráðuneytið kæmi til með að bæta að fullu það tjón sem eigendur stöðvarinnar yrðu fyrir vegna flutnings. Allan þann tíma sem liðinn er frá því að eigendur stöðvarinnar fengu þetta bréf hafa staðið yfir samningaviðræður við menntmrn. vegna þessa.
    Vilji hreppsnefndar og hreppsbúa liggur fyrir varðandi þetta mál. Fundarsamþykktir eru til þess efnis að heimamenn vilja hafa rekstur gróðrarstöðvarinnar á sama stað. En slíkar samþykktir virðast ekki hafa neitt gildi því þarna ræður ráðuneytið. Eðlilegra hlýtur að vera að í málum sem þessum ættu eigendur fyrirtækisins að semja við heimaaðila, hreppsnefnd og byggingar- og skipulagsnefnd, þá sem málið snertir mest en þurfa ekki að vera með lögfræðing á launum til að semja við menntmrn. um framtíð atvinnustarfsemi á Laugarvatni.
    Þetta er aðeins eitt dæmi um fáránleikann í stjórnunarfyrirkomulagi þessa sveitarfélags. Það er orðin brýn nauðsyn að ganga frá samningum varðandi framtíðarskipulag mála að Laugarvatni og færa ákvörðunartökuréttinn og forræði mála heim í hérað. Því spyr ég hæstv. menntmrh.:
     1. Hafa samningar tekist milli menntamálaráðuneytis og héraðsnefndar Árnessýslu um framtíðarskipan mála að Laugarvatni hvað varðar verkaskiptingu ríkis og sveitarfélagsins?
    2. Ef svo er, hvernig hljóða þeir samningar?
    3. Ef svo er ekki, hvenær má vænta þess að frá þessum samningum verði gengið?