Framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:40:03 (1698)


[16:40]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Til mín hefur verið beint fsp. viðvíkjandi greiðslum úr Framkvæmdasjóði aldraðra.
    Hvernig eru greiðslur úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna einstakra læknisaðgerða ákveðnar?
    Því er til að svara að greiðslur úr Framkvæmdasjóði aldraðra eru aldrei ákveðnar vegna einstaklinga heldur vegna ákveðinna hópaðgerða. Það eru framkvæmdastjórar sjúkrahúsa og yfirlæknar sem gera tillögur um að fjölga eða taka upp aðgerðir sem þeir hafa ekki framkvæmt áður. Þetta er eins og virðulegur málshefjandi gat um í samræmi við breytingar á lögum um málefni aldraðra, um heimild þess efnis að Framkvæmdasjóður aldraðra geti veitt styrk til rekstrar hjúkrunarsjúkrahúsa.
    Í öðru lagi er spurt hvaða sjúkrastofnanir hafa fengið slíka greiðslu 1992 og 1993, hversu háar voru greiðslur sundurliðaðar á hvort ár og stofnun.
    Þær sjúkrastofnanir sem fengu greiðslu 1992 og 1993 eru þessar: 1992 St. Jósefsspítali í Hafnarfirði 3,3 millj., Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri 2,9 millj., 1993 St. Jósefsspítali Hafnarfirði 6 millj.
    Á árinu 1992 voru framkvæmdar 12 aðgerðir á St. Jósefsspítala Hafnarfirði fyrir fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri voru framkvæmdar 12 aðgerðir sömuleiðis fyrir aukafjárveitingu úr sjóðnum.
    Gert er ráð fyrir að framkvæmdar verði 20 aðgerðir á St. Jósefsspítala fyrir fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra en þess má geta að hluti af því fé sem hann fær í ár er vegna hvíldarinnlagna að sumri.
    Í þriðja lagi er spurt: Hver var aldur þeirra sjúklinga sem hér um ræðir, a. meðalaldur, b. lægsti aldur?
    Meðalaldur 1992 á St. Jósefsspítala Hafnarfirði var 76 ár og 1993 73 ár. Lægsti aldur á sama spítala var 72 ár 1992 og 65 ár 1993.
    Aldursdreifing á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 1992 var meðalaldur 71 ár og lægsti aldur 57 ár.