Flokkun stera

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:44:27 (1700)

[16:44]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Hormónið sterar eru afleiður frá kólesteróli sem framleitt er í kynkirtlum og nýrnahettum og er nauðsynlegt fyrir líkamsstarfsemina. Sterar eru líka afar mikilvæg sem læknislyf. Þeir eru notaðir sem ofnæmisbælandi efni, t.d. í asmalyfjum og exemáburði. Einnig eru sterar nauðsynlegir við líffæraflutninga svo að líkaminn hafni ekki hinum nýju líffærum. En þeir hafa líka önnur áhrif og óæskilegri. Inntaka þeirra hefur t.d. áhrif á aldósterón sem aftur veldur því að vökva- og saltbúskapur líkamans verður í ólagi og líkaminn þrútnar allur upp. Inntaka stera veldur líka æðasamdrætti í húð svo hún verður óhrein og einnig æðasamdrætti í nýrum, sem allir geta skilið að er harla óheppilegur. En aftur á móti veldur hún líka víkkun æða í heila og vöðvum. Þannig getur búskapur líkamans afmyndast og álag á hjartað orðið hættulega mikið. Mikil taka stera getur haft áhrif á lundarfar, aukið stress og þar með ofbeldishneigð eftir því sem erlendar fræðibækur segja. Á hinn bóginn er taka stera líka mikil freisting þeim sem taka þátt í keppni eða stefna að því að ná miklum afköstum, því stresshormóninn sem eflist við inntöku stera veldur því að blóðsykur hækkar, fólk hleypur hraðar, úthald eykst og afköst hjartans líka.
    En oft þolir hjartað ekki hið aukna álag og bilar og þá er vítahringnum lokað og ánægjan snýst upp í andhverfu sína, sorglegan sjúkdóm eða jafnvel dauða. Því hef ég leyft mér á þskj. 243 að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh.:
    Hefur ráðherra í hyggju að breyta flokkun steralyfja þannig að þau teljist eiturefni, þ.e. herða á ákvæðum viðvíkjandi neyslu steralyfja?