Sala ríkisins á verðbréfum og spariskírteinum

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:54:51 (1704)


[16:54]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir því við Seðlabanka Íslands að hann afhenti mér svör við þeim spurningum sem hv. þm. beindi til mín á þskj. 187. Fyrsta spurning hv. þm. hljóðar svo:
    Hverju nam heildarsala ríkisins á verðbréfum og spariskírteinum föstudaginn 29. október sl.?
    Samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands var sala ríkisins á spariskírteinum 29. okt. 1993 sem hér segir:
    2. flokkur D 1993 til fimm ára, nafnverð 61 millj. 670 þús. Söluverð 59 millj. 952 þús.
    2. flokkur D 1993 til tíu ára, nafnverð 109 millj. 650 þús. Söluverð 102 millj. 103 þús. Söluverð er þannig samtals, bæði á fimm og tíu ára bréfum, 162 millj. 55 þús.
    Seðlabankanum er ekki kunnugt um að ríkissjóður hafi selt önnur verðbréf 29. okt. 1993.

    Í öðru lagi er spurt: Hver bar ábyrgð á því að viðskipti voru leyfð þann dag?
    Svarið við því er að það var að sjálfsögðu fjmrh. sem bar ábyrgð á því.
    Í þriðja lagi er spurt: Hvert má ætla að yrði söluverð sömu bréfa ef ríkisstjórnin nær markmiðum sínum í vaxtamálum? Hve háar fjárhæðir verður ríkissjóður að greiða í vexti umfram það sem orðið hefði ef bréfin hefðu selst á lægri vöxtum í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar, þ.e. 5%?
    Söluverð spariskírteina 29. okt. 1993 var sem hér segir og þá tökum við fyrst raunverulega sölu:
    2. flokkur D 1993 til fimm ára með 6,52% ávöxtun á ári var 59 millj. 952 þús. kr.
    Ef um væri að ræða 5% ávöxtun á ári þá er um að ræða 64 millj. 373 þús. kr. og er þá mismunur 4 millj. 421 þús. kr.
    Ef tekin eru tíu ára bréfin sem seldust með ávöxtunarkröfunni 6,67 þá var raunveruleg sala eins og fram kom hér fyrr, 102 millj. 103 þús. kr. En ef um 5% ávöxtun hefði verið að ræða þá hefði salan verið fyrir 119 millj. 404 þús. kr. Samtals er mismunurinn 17 millj. 301 þús. kr.
    Í fjórða lagi er spurt: Voru bankar eða opinberir sjóðir í hópi kaupenda þennan föstudag og ef svo er, hve mikið keyptu þeir?    
    Í svari Seðlabankans er sölu á skuldabréfum ríkissjóðs og spariskírteinum skipt þannig milli söluaðila og tökum við þá fyrst fimm ára bréfin:
    Seðlabanki Íslands keypti að nafnvirði fyrir 45 þús. kr., bankar og sparisjóðir fyrir 40 millj. 185 þús. kr. og verðbréfafyrirtæki fyrir 21 millj. 440 þús. kr.
    Ef við tökum tíu ára bréfin þá keypti Seðlabanki Íslands að nafnverði fyrir 1 millj. 40 þús. kr., bankar og sparisjóðir fyrir 9 millj. 530 þús. kr. og verðbréfafyrirtæki fyrir 99 millj. og 80 þús. kr.
    Í bréfi til mín frá Seðlabankanum, sem dagsett er 5. nóv., segir síðan í lokin, þegar búið er að gera grein fyrir fylgiskjalinu sem ég las upp úr, með leyfi forseta:
    ,,Með tilvísun til 1. mgr. 38. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, sbr. lið 4 í fyrirspurn Alþingis, telur bankastjórnin sér ekki fært að upplýsa nánar um viðskipti einstakra aðila þar sem bankaráðsmenn, bankastjórnar og allir starfsmenn bankans eru bundnir þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptaaðila bankans.``
    Ég vil aðeins til viðbótar upplýsa það að ég hef skrifað Seðlabankanum bréf, og var búinn að því áður en þessi fyrirspurn var lögð fram, þar sem ég óskaði eftir því að kannað yrði hvort um óeðlileg innherjaviðskipti hefði verið að ræða í þessu sambandi. Ég hef ekki fengið svar frá Seðlabankanum við þeirri fyrirspurn.