Sala ríkisins á verðbréfum og spariskírteinum

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:03:53 (1707)


[17:03]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég held að menn verði að fara mjög varlega í því að upplýsa um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar með því að einn fréttamaður taki viðtal við annan fréttamann. Það liggur einfaldlega fyrir hvað ég sagði á þessu mannvirkjaþingi vegna þess að ég flutti þar skrifaða ræðu. Þar sagði ég að ríkisstjórnin væri að vinna í þessum málum og mætti búast við niðurstöðum fljótlega. Annað sagði ég ekki. Ef fréttamaður hefur síðan haft viðtal við annan fréttamann og gefið út einhverjar yfirlýsingar í því sambandi þá var það auðvitað hans mál.
    En það var vitað alveg frá því að ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að beita sér fyrir vaxtalækkun fyrst í samningum við aðila vinnumarkaðarins og síðan aftur í tengslum við ákvörðun um heildaraflamark að það væri verið að vinna að þessu máli. Það var búið að leggja fram tiltekna skýrslu vaxtamyndunarnefndar sem ég sagði að mundi verða grundvöllurinn að aðgerðum ríkisstjórnarinnar og sagði að ég mundi leggja fyrir ríkisstjórnina tillögur á grundvelli þeirrar skýrslu um aðgerðir til að lækka vexti. Það mátti því öllum vera ljóst að til stóð að framkvæma þá aðgerð sem var framkvæmd nema e.t.v. hv. framsóknarmönnum því að þeir báðu um utandagskrárumræðu um vaxtamálin á svipuðum tíma sem ekki hefur farið fram enn. En ég ítreka það að það er ekki traust heimild að einn fréttamaður taki viðtal við annan.
    Í öðru lagi er það auðvitað alveg rétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er full ástæða til að skoða þau viðskipti sem fóru fram þennan dag. Ég hef sjálfur gengið úr skugga um að þetta eru ekki óvanalega mikil viðskipti. Þetta eru viðskipti innan eðlilegra marka sem hafa oft orðið raunar miklu meiri en þetta á einstökum dögum. Ég hef beðið Seðlabankann um að skoða hvort þarna sé um óeðlilega viðskiptahætti að ræða. Hann er að rannsaka það. En ég fæ ekki frekar heldur en aðrir þingmenn og ráðherrar upplýsingar um einstaka viðskiptavini Seðlabankans og get því ekki sjálfur geint neitt nákvæmar frá þeim upplýsingum sem Seðlabankinn kann að hafa annað en það sem ég hef þegar gert. En ég mun ganga eftir því að fá svar við bréfi mínu til Seðlabankans.