Erindi til samkeppnisráðs

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:14:10 (1713)

[17:14]
     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Það hefði verið fyrir mitt leyti allt í lagi þó að hæstv. ráðherra hefði svarað þessari fsp. um leið því að hún leiðir í rauninni af hinni. En á þskj. 234 beini ég spurningum til hæstv. viðskrh. varðandi fjölda erinda sem borist hafa til samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar.
    Í umræðum undanfarið hefur það komið fram að um verulegan fjölda erinda sé að ræða sem send hafa verið samkeppnisráði til úrlausnar. Dæmi eru um það að erindi sem borist hafa stofnuninni til úrlausnar hafi legið þar mánuðum saman án þess að sá aðili sem erindið sendi fái svör, samanber fsp. sem ég mælti fyrir hér áðan. Og eftir þeim upplýsingum sem ég hef er ástæðan hinn mikli fjöldi erinda sem send er inn til úrlausnar.
    Ég set þessar spurningar ekki fram í neikvæðri merkingu fyrir Samkeppnisstofnun eða samkeppnisráð heldur einungis vegna þess að fróðlegt er að velta því fyrir sér hvort samþykkt laga um stofnunina hefur orðið til þess að menn leiti nú frekar til Samkeppnisstofnunar en áður var til Verðlagsstofnunar og verðlagsráðs og hver væri þá ástæðan þess. Hvort samhengi er milli aukinna erfiðleika og vaxandi samkeppni atvinnufyrirtækja og atvinnulífsins og fjölda erinda til Samkeppnisstofnunar og það hvort ekki sé nauðsynlegt að gera einhverjar breytingar á lögum um starfshætti stofnunarinnar ef stofnunin annar ekki með góðu móti þeim verkefnum sem til hennar eru send. Því spyr ég hæstv. ráðherra:
  ,,1. Hversu mörg erindi hafa borist samkeppnisráði og Samkeppnisstofnun til úrlausnar frá því að stofnunin tók til starfa?
    2. Er um fjölgun að ræða í samanburði við þann fjölda erinda sem bárust verðlagsráði og Verðlagsstofnun?``